140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[16:34]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu sem felur það í sér að verði hún samþykkt er Alþingi að lýsa yfir vilja til þess að hér á landi verði staðgöngumæðrun af velgjörð heimiluð. Í dag er það svo, herra forseti, að íslensk löggjöf bannar með skýrum hætti staðgöngumæðrun og ég er mjög sátt við þá löggjöf þó að eflaust megi herða á henni og kveða skýrar á um refsiramma varðandi brot á þeirri löggjöf. Ég er þar af leiðandi á móti þessari þingsályktunartillögu og ég er á móti því að hér á landi verði lögleidd svokölluð staðgöngumæðrun af velgjörð.

Þetta grundvallast á ýmsu. Ég vil fara yfir nokkra þætti hér en staðgöngumæðrun sem fyrirbæri, óháð því hvort það er í hagnaðarskyni eða velgjörðarskyni, stríðir gegn siðferðiskennd minni og virðingu fyrir kjarna lífsins.

Í umræðunni í dag hefur verið fjallað með margvíslegum hætti um hvað fólki finnist um hitt og þetta sem varðar tæknifrjóvgun, glasafrjóvgun, gjafaegg, gjafasæði og allt því um líkt og ég verð að játa að mjög margt varðandi þessi mál er mér umhugsunarefni. Það er mikið umhugsunarefni þegar tækni gefur okkur tækifæri til að grípa inn í sjálfan kjarna lífsins. Hér með er ég ekki að segja að ég sé á móti allri þeirri löggjöf sem fjallar um þessi mál og langt í frá, ég er að segja að þegar tæknin er farin að gera okkur kleift að grípa inn í kjarna lífsins með þessum hætti verðum við að stíga varlega til jarðar og við verðum að gá að hvaða afleiðingar það kann að hafa fyrir þá sem bæði inngripið er gert á og fyrir þau börn sem til verða.

Ég er líka á móti staðgöngumæðrun af því að ég tel að hún kunni að ógna mannréttindum kvenna. Bæði er það svo að þarna er að mínu mati gert ráð fyrir ákveðinni hlutgervingu á konunni, að konan sé aðgreind í annars vegar líkama og hins vegar tilfinningar og að það að ganga með barn sé ekki það tilfinningalega ferli sem meðgangan er þar sem konan undirbýr sig undir það hlutverk að verða hin nærandi móðir sem elur af sér barn og kemur því síðan til manns ef allt gengur eftir sem við flest óskum okkur. Hugmyndafræðin að baki staðgöngu tel ég að lúti að því að það sé hin góða kona sem gerir annarri konu kleift annaðhvort af því að hún er svo góð — og konur eru í eðli sínu góðar, ekki rétt? — eða af því að hún er svo sterk að hún vill gera öðrum konum kleift að verða fullburða konur, þ.e. mæður, því að kona er ekki fullburða nema móðir, alla vega samkvæmt hugmyndum feðraveldisins.

Þá finnst mér tillagan sem hér liggur fyrir skauta mjög fram hjá því að valdamisvægi er mikið í mannlegu samfélagi og ekki síst í fjölskyldum. Það getur skapað gríðarlegan þrýsting á konur ef staðgöngumæðrun yrði heimiluð með íslenskri löggjöf því að þá er hún þar með „normalíseruð“ og þar með skapast þrýstingur á konur að gera einhverjum í sínu umhverfi kleift að verða móðir og faðir.

Síðan ætla ég ekkert að neita því að vel kann að vera að það sé alrangt hjá mér og þetta eigi við um lítinn hluta kvenna. Mér finnst samt mjög margt af því sem ég hef lesið og innan femínismans, sem er hugmyndafræði sem er að miklu leyti minn pólitíski drifkraftur auk jafnaðarhugsjónarinnar, vekja hjá mér mjög miklar efasemdir og áhyggjur yfir þeirri hugmyndafræði sem liggur að baki staðgöngu. Það er reyndar margs konar hugmyndafræði sem liggur þar að baki sem ég ætla ekki að fara yfir hér.

Þá finnst mér svolítið merkilegt að í þessari tillögu er lagt til að lagt sé fram frumvarp sem heimili staðgöngumæðrun. Það er þvert á skoðanir meiri hluta þeirra umsagnaraðila sem sendu inn umsögn um málið til þingsins. Þeir sem helst mæla með þessu eru þeir sem af augljósum ástæðum eiga hagsmuna að gæta sökum barnleysis, og er það vel skiljanlegt, þeir sem eiga viðskiptahagsmuna að gæta, sem eru læknar sem stunda tæknifrjóvgun, og svo Frjálshyggjufélagið sem vill ekki setja lagaramma utan um eða banna ýmislegt í mannlegu samfélagi, en ég sé nú ekki af hverju skoðun þeirra er svona afdráttarlaus þar sem hér styður félagið einmitt strangan lagaramma, en það skilja þeir betur sem skilja frjálshyggjuna.

Ég vil svo koma að því að líka hefur verið bent á að staðgöngumæðrun kunni að stríða á móti alþjóðamannréttindaskuldbindingum sem Ísland meðal annars er aðili að. Til dæmis í umsögn frá biskupsembættinu vitnar biskup í þjóðmálanefnd kirkjunnar sem segir í sinni umsögn að hún vari við því að vikið sé frá barnalögum og farið á svig við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna en þar er sala á börnum bönnuð og sala á börnum skilgreind í viðauka sem, með leyfi forseta: ,,hvers kyns aðgerð eða viðskipti þar sem einstaklingur eða hópur fólks framselur öðrum barn gegn þóknun eða hvers kyns öðru endurgjaldi.“

Nú geta þetta verið mjög matskennd atriði og hvað er annars konar endurgjald? En við erum komin þarna inn á grátt svæði og þetta tel ég að þurfi að ræða mjög ítarlega og fara mjög alvarlega yfir, því að við stöndum í dag frammi fyrir veruleika alþjóðlegrar glæpastarfsemi þar sem verslun með konur, karla og börn er ein arðbærasta glæpastarfsemi í heimi. Við höfum gjarnan á vettvangi þingsins rætt mansal og hvernig Ísland ætlar að vinna gegn því að mansal fái hreiðrað um sig hér og að hægt sé að smygla inn fólki.

Staðgöngumæðrun sem norm er hættuleg að mínu mati því að það „normalíserar“ ákveðna hegðun. Víðtæk verslun af þessu tagi er stunduð í ýmsum ríkjum og andstætt því sem segir í nefndaráliti meiri hluta, eða hvort það er í þingsályktunartillögunni sjálfri, mun þetta ekki vinna gegn slíku og þetta mun ekki leiða íslensk pör frá því að fara til útlanda og sækja sér börn. Reynslan frá Bandaríkjunum og Bretlandi hefur sýnt okkur að þar hefur lögleiðing staðgöngumæðrunar af velgjörð „normalíserað“ þetta ástand. Fjöldi fólks telur sig ekki hafa efni á staðgöngumæðrum innan sinna heimaríkja þrátt fyrir að þetta sé velgjörð og það sækir börn erlendis þrátt fyrir að þetta sé löglegt með einhverjum hætti í heimaríkjum þess.

Ég ætla ekki í sjálfu sér að gera þessa ályktun að frekara umtalsefni í dag nema til komi síðar í umræðunni að ég telji mig knúna til þess. Ég ítreka það bara að ég er andsnúin staðgöngumæðrun og ég tel eðlilegt að við, ef eitthvað er, herðum á löggjöf um staðgöngumæðrun og förum yfir það hvernig við getum komið í veg fyrir að Íslendingar nýti sér svona þjónustu erlendis, slíka markaðsvæðingu á meðgöngunni sem fram fer erlendis og fólk nýtir sér. Ég tel að við ættum að líta til Noregs í þeim efnum sem er einmitt að fást við það hvernig hægt er að tryggja þeim börnum sem þannig hafa orðið til, börnum norsks fólks sem fædd eru á Indlandi til að mynda, borgaraleg réttindi í Noregi en um leið herða á banni við að notfæra sér staðgöngumæðrun erlendis og refsingu við slíku athæfi.

Þrátt fyrir þessa andstöðu mína mun ég styðja þá breytingartillögu sem hér liggur fyrir, enda hvetur hún til frekari umræðu um staðgöngumæðrun og ég tel það af hinu góða. Ég held að full ástæða sé til að við ræðum þetta málefni enda eru margir því fylgjandi, ég er á móti en ég held að það sé ágætt að halda áfram umræðu um þetta mál. Þar að auki er þessi breytingartillaga í samræmi við landsfundarsamþykkt Samfylkingarinnar frá október sl. þar sem segir, með leyfi forseta:

„Áður en lögleiðing staðgöngumæðrunar kemur til álita, þvert á niðurstöðu ráðherraskipaðra sérfræðinga og löggjöf annarra Norðurlanda, þarf að fara fram ítarleg umræða um allar hliðar málsins.“

Ég geri þetta að lokaorðum mínum, herra forseti.