140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[16:52]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel mig knúna til að endurtaka það sem ég fór yfir og reyni að vera skýrari í máli ef eitthvað var óljóst. Ég er búin að segja það í tvígang í þessum ræðustól á innan við hálftíma að ég er ekki endilega mótfallin allri þeirri löggjöf sem varðar notkun tækninnar við að frjóvga egg og kveikja líf. Það sem ég hef sagt er að við þurfum að gæta okkar þegar slík tækni á í hlut, þ.e. hvað við leyfum í mannlegu samfélagi með löggjöf. Við þurfum að stíga varlega til jarðar í þeim efnum. Ég sagði jafnframt að ég er mótfallin því að við komum með lögum í veg fyrir að börn fái að þekkja uppruna sinn. Það eru mýmörg dæmi um að börn þekkja ekki uppruna sinn af ýmsum ástæðum, en við sem löggjafi eigum ekki að koma í veg fyrir slíkt. (REÁ: Gjafaegg og gjafasæði …) Gjafaegg og gjafasæði kunna að vera gefin undir nafni. En þegar barn verður til sem er svipt réttinum til að þekkja uppruna sinn á grundvelli löggjafar er það í andstöðu við íslensk barnalög (Gripið fram í.) og það er í andstöðu við alþjóðlega mannréttindasáttmála, þar á meðal barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. (Gripið fram í.)