140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[17:16]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um staðgöngumæðrun sem er stórt og mikið mál og prinsippmál af ótrúlega mörgum ástæðum. Spurningin um staðgöngumæðrun varðar líf og heilsu konu sem gengur með barn. Spurningin um staðgöngumæðrun varðar meintan rétt til að eignast barn. Spurningin um staðgöngumæðrun varðar tilveru barns, sjálfsmynd þess og rétt. Spurningin um staðgöngumæðrun er siðferðisleg, hún er lögfræðileg, hún er læknisfræðileg. Spurningin um staðgöngumæðrun er svo stór að hún endurspeglast í þeirri breidd sem fram kemur í umsögnum um tillöguna, þ.e. breidd sem kemur fram í því frá hve ólíkum aðilum umsagnirnar koma og hversu fjölbreytilegur grundvöllur liggur að baki afstöðu umsagnaraðila.

Umræðan um staðgöngumæðrun á Íslandi varðar líka samspil Íslands og Norðurlandanna. Hvað varðar heilbrigðissjónarmiðin, lögfræðilegu sjónarmiðin, kvenfrelsissjónarmiðin og siðferðislegu sjónarmiðin höfum við að jafnaði verið nokkuð samstiga Norðurlöndunum í þeim málaflokkum sem þar eru undir.

Spurningin um staðgöngumæðrun er stór og krefst því óvenjulega ríkrar yfirvegunar og krefst þess að við byggjum ákvarðanir okkar og afstöðu á mjög traustum grunni. Þau skref sem hingað til hafa verið stigin í þeim efnum hafa að jafnaði verið varfærin. Þau hafa snúist um það að leita að bestu mögulegu upplýsingum, að leita að svörum við flóknum spurningum, hvort sem þau eru siðferðisleg, lögfræðileg eða læknisfræðileg, og að stíga næsta skref sem eðlilegt framhald þess skrefs eða þeirra skrefa sem tekin hafa verið á undan.

Í skýrslunni sem hér hefur verið rædd segir að málið sé að sönnu flókið en ekki er lagt til að næsta skref verði frumvarp eða að taka eigi þá afstöðu að á Íslandi eigi að heimila staðgöngumæðrun. Það er ekki niðurstaða nefndarinnar. Nefndin dregur upp, og um er að ræða færustu sérfræðinga okkar, skýr sjónarmið: Í þeim varnaðarorðum sem þar eru efst á blaði er varað við að ganga hratt fram. Í lokaáliti starfshópsins segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Helstu rök fyrir að leyfa staðgöngumæðrun eru þau að hún geti verið farsæl lausn á vanda pars eða einstaklings sem á við ófrjósemisvanda að stríða. Helstu rök gegn staðgöngumæðrun eru hætta á því að litið sé á staðgöngumóðurina sem hýsil utan um barn.“

Þetta er niðurstaða nefndarinnar, starfshópsins. Nú skulum við staldra við og stíga næstu skref af sömu yfirvegun og þau sem hingað til hafa verið stigin. Við skulum horfa til þess fjölda umsagna sem liggur fyrir þinginu þar sem tugur umsagnaraðila varar við að tekin sé sú ákvörðun að heimila staðgöngumæðrun. Aðrir aðilar velta upp ýmsum siðferðislegum spurningum.

Það er engin leið, burt séð frá afstöðu til staðgöngumæðrunar, að líta svo á að það skref sem meiri hlutinn leggur til sé rökrétt næsta skref. Þetta fullyrði ég á þeim grunni að of mörgum spurningum er enn ósvarað. Það eru spurningar sem varpað hefur verið fram af mörgum aðilum. Ég get nefnt Siðfræðistofnun Háskóla Íslands. Ég get nefnt Rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafræðum, sem segir fullum fetum að frekari rannsókna sé þörf. Ég get nefnt fleiri aðila. Má á grundvelli þess spyrja, eins og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir gerði í sinni framsögu: Ef vinnuhópar eru settir upp er þá ekki rétt að hlusta á niðurstöður þeirra?

Þá hef ég í sjálfu sér ekki reifað þau fjölþættu sjónarmið sem hér eru undir en sannarlega hefur málið þroskast töluvert í meðförum þingsins. Í nefndaráliti meiri hlutans eru ræddir þættir sem ekki voru með í upprunalegu máli, til að mynda skilkyrðislaus réttur staðgöngumóður til að ráða yfir eigin líkama og góð og uppbyggileg tengsl staðgöngumóður við verðandi foreldra barnsins o.s.frv.; hér eru fjöldamargir mjög jákvæðir þættir. Sumt af því hefur örugglega verið í upprunalegum tillögum en annað bæst við og umræðan hefur klárlega verið málinu til góðs.

Réttindi barnsins er líka flókinn þáttur sem þeir sem fyrst og fremst hafa látið sig siðferðislegu hlið málsins varða telja brýnt að halda til haga. Hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir ræddi rétt barnsins til að þekkja uppruna sinn en ekki síður er mikilvægt að gæta að rétti barnsins til verndar og umönnunar og annarra þeirra þátta sem barnalöggjöfin snýst um og á að tryggja eftir því sem kostur er.

Ýmis þeirra álitamála sem hér hafa verið nefnd er þó full ástæða til að reifa í stuttu máli. Má þá til að mynda nefna þann þátt — sem er þáttur sem margir nefna, allt frá femínistum til þjóðkirkjunnar — sem er hættan á ákveðinni markaðsvæðingu móðurhlutverksins þar sem ákveðin krafa myndast og aðgangur að líkama konu jafnvel þó að það sé skilgreint sem vinnutap eða sjúkrapeningar; og þetta hefur líka verið rætt fyrr í umræðunni. Það er eitt af því sem taka þarf til mun kirfilegri og rækilegri skoðunar en gert er í tillögunni.

Annar þáttur varðar nálgun meiri hlutans, sem miðar tillöguna við mjög þröngan og vel skilgreindan hóp; gert er ráð fyrir að mjög fá pör á ári nýti sér þjónustuna og að læknisfræðilegar ástæður fyrir barnleysi verði mjög þröngt skilgreindar. Þá má velta fyrir sér heilsufarslegum rökum eins og hér hafa verið nefnd, til að mynda ef um er að ræða alvarlegan hjartasjúkdóm væntanlegrar móður eða sögu af alvarlegu fæðingarþunglyndi. Þetta eru heilbrigðisrök sem kann að vera hægt að taka til skoðunar ef beitt er almennum jafnræðissjónarmiðum. Hvenær er jafnræðis gætt? Hvernig tryggjum við að úrræðið springi ekki út á einhverjum tímapunkti og verði þá skyndilega fyrir miklu fleiri en lagt var upp með; að þessi litli gluggi sem til stóð að opna varfærnislega verði miklu flóknara mál sem erfitt verði að snúa til baka með? Þetta eru ábyrgar vangaveltur sem ég held að við verðum að taka inn í myndina.

Í þessari umræðu hefur ekki mikið verið fjallað um það að þetta snúist að einhverju leyti um að treysta konunni fyrir eigin líkama, hún geti tekið þessa ákvörðun eins og aðrar ákvarðanir, og að löggjafinn eigi ekki að vera að setja lög og reglur til að vernda fólk fyrir sjálfu sér, ef svo má að orði komast. Í því efni má þó einfaldlega nefna vinnuverndarlöggjöf eða lög um laun og lög og reglur til að vernda fólk gegn því að samfélagið misnoti fólk eða að fólk sé misnotað hvert af öðru. Nýleg lög sem banna kaup á vændi snúast auðvitað um ákveðna vernd út frá ákveðinni samfélagssýn. Það er í sjálfu sér kannski ekki þáttur sem þarf að staldra lengi við ef marka má þann anda sem verið hefur í umræðunni sem í öllum meginatriðum hefur verið mjög málefnalegur.

Ég nefndi þá staðreynd í inngangi mínum að Norðurlöndin hafa ekki farið þessa leið. Það er auðvitað svo að við erum í sérstöku samfélagsástandi, við erum í mjög sérstöku pólitísku ástandi og við erum í mjög sérstakri stöðu að því er varðar ákvarðanir um framtíðina. Við erum að mörgu leyti samfélag í sárum, pólitíkin er nötrandi frá degi til dags. Við erum kannski líka í þeirri stöðu að við erum að taka heilmikið af samfélagskerfi okkar til skoðunar.

Við erum nánast á hverjum degi að ræða um eftirlitsstofnanir. Við erum að ræða um Matvælastofnun í dag og um Umhverfisstofnun. Svo erum við að ræða um brjóstapúða og ýmislegt því um líkt. Víða er það þannig að við þurfum að taka eftirlitsstofnanir okkar til skoðunar. Við þurfum að tryggja að við stígum öll skref í þá átt að styrkja rétt almennings til heilsu og heilnæms umhverfis, til að matvælaeftirlitið sinni því að við fáum öruggan og heilnæman mat, til að heilbrigðis-, umhverfis- og mengunareftirlitið tryggi að við öndum að okkur hreinu lofti og fáum hreint og gott vatn úr krönum o.s.frv., og þetta er gríðarlega mikill og vaxandi þáttur í umræðunni um réttinn til heilnæms umhverfis. Ég veit til að mynda til þess að slíkir textar eru í stjórnarskrám Portúgals og Spánar og fleiri landa; það er hreinlega talið til mannréttinda að mönnum séu tryggð heilnæm lífsskilyrði. Til að svo megi verða þurfum við að búa við öruggt eftirlit, við þurfum að búa við örugga og skýra eftirfylgni og samfélag sem hefur burði til að standa með almenningi og heildarhagsmunum. Það hefur því miður ekki endilega verið það sem hefur komið á daginn í svo mörgum efnum.

Auðvitað hefur íslenska samfélagið verið mikið undir smásjá undanfarin missiri eftir hrun. Fjármálaeftirlitið fékk sína útreið og við höfum verið að freista þess að ná betur utan um þessa þætti, bæði í löggjöf og reglugerðum og svo líka með styrkingu á annan hátt. Þess vegna veltir maður ekki síður fyrir sér hversu vitlegt það er að taka ákvörðun sem opnar gluggann með eins afgerandi hætti og hér er lagt til. Þó að glugginn sé lítill og opnaður af varfærni þá veltir maður því fyrir sér hvort við höfum nægilega sterka innviði í íslensku samfélagi til að taka slíka ákvörðun þegar við höfum ekki einu sinni trygga samstöðu með félögum okkar á Norðurlöndum. Við höfum ekki fyrirmynd í löggjöf, fyrirmynd í eftirliti, fyrirmynd í utanumhaldi eins og við höfum oft og einatt þaðan þegar um er að ræða stór skref.

Finnar stigu skref til baka og gerðu staðgöngumæðrun aftur óheimila eftir að hafa stigið skref í þessa veru. Þó það sé bara á þessum grunni — og þá er ég ekki að reifa þau sjónarmið og þá sannfæringu mína að þetta sé óráð, sem ég gæti haldið langa ræðu um — og út frá forsendum varúðar og þess að stíga hægt til jarðar í þessum efnum tel ég að við eigum að staldra við og horfa til þess hversu ríkan tíma er nauðsynlegt að gefa sér til rannsókna og umræðu í svo flóknu máli. Við erum að tala um svo gríðarlega stórt siðferðislegt álitamál sem líka er nauðsynlegt að ræða í kvennapólitísku samhengi um baráttu kvenna um réttinn yfir eigin líkama. Það er nauðsynlegt að tengja þetta tvennt. Sem betur fer eru Íslendingar í sterkri stöðu hvað varðar kvenfrelsi og stöðu kvenna og ekki síst þess vegna þurfum við að gæta mjög vel að þeim ákvörðunum sem verið er að taka. Við þurfum að gæta þess að ákvörðun af þessu tagi sé ekki með nokkru móti á þann veg að hún gangi á rétt kvenna til eigin líkama.

Eins og ég rakti að framan þá er það afstaða mín að tillaga meiri hluta velferðarnefndar, um að afgreiða málið með þessum hætti, þ.e. að samþykkja þingsályktunartillöguna, sé ákveðið stökk í ákvörðun. Þetta er ekki eðlilegt næsta skref. En í þeim anda sem ég hef talað vil ég taka undir breytingartillögu við þingsályktunartillögu um staðgöngumæðrun sem flutt er af fjórum hv. þingmönnum. Þar er lagt til að í stað orðanna „undirbúi frumvarp til laga sem heimili staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni“ komi orðin „verði falið að skoða álitamál um staðgöngumæðrun“ og að hópurinn hafi meðal annars hliðsjón af niðurstöðum vinnuhóps fyrrverandi heilbrigðisráðherra sem skilaði áfangaskýrslu um siðferðisleg, læknisfræðileg og lögfræðileg álitaefni tengd staðgöngumæðrun. Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili svo niðurstöðum til velferðarráðherra sem flytji Alþingi skýrslu um málið að því loknu.

Alþingi er og á að vera málstofa ekki síður en löggjafarvald. Við þurfum ekki að vera svo upptekin af löggjafarvaldshlutverkinu að við teljum að við séum ekki að vinna vinnuna okkar ef við erum ekki endilega að skrifa frumvarp. Það getur verið, og ég held að svo sé, mjög farsæl leið og farsæl niðurstaða í þetta vandmeðfarna og flókna mál að setja það í þann farveg að málið sé skoðað betur. Nú er búið að skerpa betur álitamálin og það sem stærstu spurningarmerkin eru sett við, þar sem þau eru hvað áleitnust. Slík vinna ætti að geta verið þverpólitísk og málefnaleg og byggð á upplýsingum og þekkingu. Hún ætti að geta orðið til þess að næstu skref verði stigin á þann veg að þróunin í þessum efnum verði til góðs.