140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[17:44]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að leyfa mér að blanda mér í þá umræðu sem hér fer fram um tillögu til þingsályktunar um staðgöngumæðrun. Ég vil byrja á því að segja það strax að ég er ekki í hópi þeirra þingmanna sem hafa fjallað um þetta mál á vettvangi þingnefnda og ekki haft aðstöðu til að sökkva mér niður í allar hliðar þessa máls, allar umsagnir eða hlusta á gesti og annað slíkt eins og þeir þingmenn sem hafa átt sæti í þeim nefndum þar sem fjallað hefur verið um þetta mál, bæði núverandi velferðarnefnd og áður heilbrigðisnefnd og félagsmála- og trygginganefnd þingsins. Eftir sem áður er um að ræða að mínu viti stórt prinsippmál sem varðar marga þætti. Það eru margar stórar spurningar, má segja, sem hljóta að koma upp í þessu samhengi. Hæstv. umhverfisráðherra Svandís Svavarsdóttir nefndi í máli sínu að þetta væri læknisfræðilegt mál og siðfræðilegt, hefði margar slíkar hliðar sem við þyrftum að fjalla um í þessu samhengi.

Ég vil líka segja að ég hef í sjálfu sér ekki mótað mér endanlega afstöðu til þess hvort staðgöngumæðrun á því formi sem lagt er til í þessari þingsályktunartillögu eigi að heimilast eða ekki. Ég er þar staddur að ég tel að enn þá eigi eftir að ræða þetta mál frá öllum hliðum í samfélaginu í breidd sinni áður en menn gera endanlega upp hug sinn. Ég ætla ekki að útiloka hér og nú að ég gæti á einhverju stigi málsins stutt tillögu af þessum toga, en ég er ekki kominn á þann stað í málinu eins og sakir standa. Ég hef þess vegna leyft mér að vera meðflutningsmaður á breytingartillögu sem við flytjum fjórir þingmenn sem felur í sér að ekki er gengið eins langt og gert er ráð fyrir í tillögunni sem hér liggur fyrir og meiri hluta velferðarnefndar leggur til að verði samþykkt óbreytt. Í henni er beinlínis gert ráð fyrir að velferðarráðherra skipi starfshóp sem undirbúi frumvarp til laga sem heimili staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Ég er sammála því sem kom fram hjá hæstv. umhverfisráðherra að með því að samþykkja slíka tillögu væri Alþingi í raun að taka þá efnislegu afstöðu að það vilji að staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni, væntanlega á þeim forsendum sem hér eru raktar, verði heimiluð. Eins og ég segi ætla ég ekki að útiloka að maður geti komist að þeirri niðurstöðu eftir vandlega yfirlegu að rétt sé að taka það skref en ég tel að enn skorti talsvert á umræðuna um kosti og galla málsins og um þær spurningar sem óneitanlega vakna.

Ég tek eftir því að í greinargerð með tillögunni eru rakin mjög mörg atriði sem þarf að hafa í huga við áframhaldandi vinnu. Flutningsmenn leggja þetta þannig upp að þau atriði eigi að hafa í huga við samningu lagafrumvarps, þ.e. að í vinnunni við samningu lagafrumvarps eigi að svara þeim álitamálum sem þar eru rakin sem meðal annars lúta að því hvernig hagur barnsins verði best tryggður, hver réttur barnsins eigi að vera, til dæmis til þess að þekkja uppruna sinn, um réttindi staðgöngumóðurinnar, hvort uppfylla þurfi einhver skilyrði til að fá að vera staðgöngumóðir, um heimild til að eignast eða ættleiða barn með staðgöngumæðrun o.s.frv. Þarna er velt upp spurningum sem ég tel eðlilegar í þessu samhengi. Spurningin er í mínum huga fremur þessi: Á að velta þessum spurningum upp og leita svara við þeim og draga fram rök með og á móti í aðdraganda þess að frumvarp sé samið sem heimili staðgöngumæðrun eða á fyrst að leita svara við þessum álitamálum og koma með skýrslu þar að lútandi til Alþingis og á grundvelli þess fari fram heildarumræða um kosti og galla málsins og síðan fylgi þá eftir atvikum frumvarp í kjölfarið?

Ég hallast helst að því að hið síðara væri réttari gangur málsins og mér finnst í raun og veru að því sé svolítið sleppt með því að fara strax í það skref sem meiri hluti velferðarnefndar og flutningsmenn leggja til. Háttvirtur 1. flutningsmaður tillögunnar segir að þessi vinna sé öll búin en ég hef ekki sannfæringu fyrir því að svo sé og vísa þá meðal annars í nefndarálit sem liggja hér fyrir, bæði frá 1. og 2. minni hluta velferðarnefndar, þar sem meðal annars er vikið að umsögnum um þetta mál þar sem stór hluti umsagnaraðila hefur lagt til að þetta skref verði ekki stigið. Mér finnst því að eftir eigi að svara fjölmörgum spurningum hvað þetta varðar.

Ég tel sem sagt, virðulegi forseti, að þetta mál verðskuldi mjög ítarlega og vandaða yfirlegu og umfjöllun á vettvangi Alþingis. Sumir kunna að halda því fram að sú umræða hafi nú þegar átt sér stað og menn séu komnir á endastöð. Sumir eru komnir svo langt í þessari umræðu með sjálfum sér að þeir treysta sér til að styðja að tillagan verði samþykkt og frumvarp samið um að heimila staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Aðrir eru kannski ekki komnir svo langt í þessari hugsun og það á við um mig í þessu máli. Ég tel að enn séu mörg álitamál uppi og ég hefði viljað að þingið fengi meira ráðrúm til að ræða þetta og það fengist líka meira rúm til almennrar samfélagsumræðu. Jafnvel þótt haldin hafi verið málþing og ráðstefnur þar sem væntanlega hafa komið að þeir sem hafa mestan áhuga, ef svo má segja, á þessu máli, kannski þeir sem eru fagaðilar og þeir sem brenna fyrir þennan málstað, þá hefur ekki átt sér stað mikil umræða um þetta almennt í samfélaginu eftir því sem ég fæ best séð.

Þetta finnst mér sem sagt skorta. Þar með er ég ekki að segja að ég mundi á endanum leggjast gegn samþykkt málsins því að, eins og ég sagði í upphafi, ég er ekki kominn á þann stað eins og sakir standa. Þess vegna finnst mér skynsamlegt að fara þá leið sem lögð er til í breytingartillögu sem ég og þrír aðrir hv. þingmenn höfum leyft okkur að leggja fram um þetta mál, að það verði unnin ítarleg skýrsla sem verði lögð fyrir Alþingi af hálfu hæstv. velferðarráðherra. Menn geta þá tekið ákvörðun um það í framhaldinu hvort semja eigi frumvarp og hvernig það eigi að vera, hvort það eigi að fjalla almennt um staðgöngumæðrun. Einhverjir hafa nefnt þá leið að í raun og veru ætti staðgöngumæðrun ekki að vera heimil en það ætti að vera unnt að veita undanþágur, setja einhverja slíka ramma, eða fara þá leið sem gert er ráð fyrir í tillögunni, að heimila hana í velgjörðarskyni. Þá þurfum við líka að svara áleitnum spurningum eins og: Hvar eru mörkin milli velgjörðarskyns og hagnaðarskyns og hvernig tryggjum við að þau haldi ef þau eru sett? Þetta er reifað ágætlega í umfjöllun málsins í greinargerðum þannig að ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta en ég vildi, virðulegur forseti, að þessi sjónarmið kæmu fram og ég mun að sjálfsögðu styðja þá breytingartillögu sem ég er meðflutningsmaður að í þessu máli.