140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[17:53]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins út af því sem sagt var um að umræðan um þetta mál væri ekki næg. Ég er andvíg breytingartillögu hv. þingmanns vegna þess að ég tel, eins og ég kallaði fram í áðan, að mikið af þessari vinnu hafi þegar verið unnin. Einnig er það svo varðandi þá vinnu sem á eftir að fara fram að sérstaklega er tekið fram í nefndaráliti meiri hlutans og í tillögunni að starfshópnum sem falið verður að semja frumvarpið, verði líka falið að fara yfir öll þau álitamál sem hér hafa verið reifuð og kunna að koma upp.

Hvað umræðuna um þetta mál í samfélaginu snertir þá hef ég haldið því fram að hún verði aldrei almenn. Þetta er ekki eitthvert Icesave-mál sem allir munu hafa skoðanir á. Það kom mér satt að segja mikið á óvart hversu almenn hún er þó, hún er mun meiri en ég gat ímyndað mér. Vegna þess að því er alltaf haldið fram að ekki sé búið að ræða þetta þá gerði ég það að gamni að telja það sem gerst hefur í þessum málum. Á síðustu 18 mánuðum að ég hygg, hafa verið haldin 15 málþing um staðgöngumæðrun. Ég hef tekið þátt í umræðum á velflestum þessara málþinga. Allir fjölmiðlar hafa fjallað um þetta: Kastljós, Ísland í dag, síðdegisútvarpið, Reykjavík síðdegis, Ísland í bítið, Návígi, meira að segja Simmi og Jói, Fréttablaðið, Fréttatíminn, Nýtt líf, Morgunblaðið, og þetta hefur verið margsinnis í fréttum á RÚV og Stöð 2. Ef maður gúglar staðgöngumæðrun fást 106 þús. niðurstöður. Staðganga gefur 39.400 niðurstöður, staðgöngumóðir 21.800 niðurstöður. 80% landsmanna lýsa sig fylgjandi staðgöngumæðrun í skoðanakönnun. Ég held nefnilega að umræðan taki toppa, hún eykst þegar við ræðum þetta hér á þingi og þegar einhver frétt kemur um þetta og svo lognast hún út af þess á milli vegna þess að þetta er ekki mál (Forseti hringir.) sem margir eru að hugsa um á degi hverjum.