140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[18:04]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Barn er ekki mannréttindi, barn á mannréttindi. Það er mikill munur þar á. Barn er guðs gjöf, við getum helst kallað það svo.

Sú tillaga sem hér er rædd er að mínu mati forkastanlega vanhugsuð með tilliti til réttar barns, með tilliti til almennrar siðfræði sem hlýtur að vera grunnankeri ekki bara í samfélagi okkar heldur í samfélögum almennt í heiminum. Það er vel skiljanlegt að fólk þrái að eignast börn, það er eðli lífsins. Lífið er aldrei 100% og þá geta menn velt fyrir sér því svigrúmi sem er fyrir hendi til að finna einhverjar nýjar leiðir til að leysa úr vandanum þegar óskir ganga ekki fram eins eðlilega og fólk vill. En þó að þessi tillaga byggi á því að reyna að setja lög þannig að fólk geti eignast umráðarétt yfir börnum á réttmætan hátt er það gert með óréttmætri aðferð. Hún vegur miklu þyngra að mínu mati vegna þess að öll óvissan er á kostnað barnsins. Þetta er í rauninni svo alvarlegt mál að mér finnst með ólíkindum að menn tali um svona í alvöru í upplýstu samfélagi. Vitnað er í umsagnir, vitnað er í fjölmiðla, vitnað er í skyndisvör á gatnamótum, í herbergjum, í samtölum í útvarpi, en það er ekkert ígrundað og ekki krufið til mergjar.

Við vitum það ósköp vel sem höfum starfað í blaðamennsku að haldminnstu svör sem menn fá við spurningum eru þau sem gefin eru við spurningum sem spurðar eru í skyndi. Í heild eru það haldminnstu svörin sem fást, við Spurningu dagsins o.s.frv. Tilviljun ræður, slembilukka. Menn tala um hvar svona mál sé statt, eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson orðaði það, en ég held að það séu óravíddir í það að við höfum heimild til að grípa inn í þá siðferðislegu þætti sem lúta að réttindum barnsins.

Ef við sæjum fram á að mannkynið væri að deyja út getur vel verið að það væri réttlætanlegt að grípa til örþrifaráða, en svo er nú ekki sem betur fer og hægt er að nefna svo ótal marga þætti. Það er engin spurning að staðgöngumæður í heiminum skapa mikla óvissu og óöryggi fyrir börn. Það er heldur engin spurning að staðgöngumæðrun getur heppnast og átt rétt á sér ef það er ekkert þvingað í því sambandi, en óvissan er miklu meiri, óvissuþátturinn er miklu sterkari.

Það er vitað mál að mismunun í þessum efnum í heiminum er gríðarleg, mismununin þar sem ríkt fólk leyfir sér að ganga til þessa verkefnis í skjóli peninga. Ég ætla ekki að líkja þessu við það sem kallað er elsta atvinnugrein í heimi en mér dettur það samt í hug. Mér dettur líka í hug að þessi aðferðafræði sé frekar á sviði gæludýraverslana en því er lýtur að réttindum barns, réttindum manneskju til að lifa við eðlilegar aðstæður.

Allir einstaklingar reyna að kryfja til mergjar upphaf sitt og bakgrunn, þó misjafnlega mikið eins og gengur. Þeir sem fæðast í stöðugleika og lifa í stöðugleika gera það ugglaust minna en aðrir sem fæðast við misjafnar aðstæður og hafa misjafnt upplag til ýmissa þátta, en allir einstaklingar gera þetta og það er út frá þeim sem við verðum að marka stefnu í að verja þann siðferðisgrunn sem hnýtir upp öryggi fyrir sem flesta. Það gerum við ekki með því að ætla að búa til eitthvert íslenskt kerfi um staðgöngumæður sem á að vera til fyrirmyndar, vegna þess að það er ótrúlega djarft inngrip að ætla sér að blanda sér inn í það sem er guðs gjöf.

Það eru svo margir endar lausir sem lúta að því er staðgöngumæðrun býður upp á. Til að mynda er nefnt að það sé allt í lagi að gera það í skjóli vináttu, kærleika, fjölskyldutengsla og góðvildar en það er því miður ekki hægt að setja nein mörk á hvaðan vináttan kemur, hvaðan góðvildin kemur. Hver ætlar að dæma um það ef Íslendingur segir að hann eigi vini í Hong Kong, Taílandi, Brasilíu og þessir vinir ætli að hlaupa undir bagga með honum svo hann geti eignast umráðarétt yfir barni? Hver ætlar að dæma um það? Þetta er fyrir fram svo flókið mál að það er ekki nokkur leið að réttlæta það ef við ætlum að reyna að byggja stöðugleika og líf barnanna í landinu á einhverju sem heitir öryggi, yfirvegun og rósemi. Það hlýtur þó að vera grunnviðmiðunin ef við ætlum að rækta það sem heitir kærleiki og vilji til að vinna til góðs.

Ég orðaði það svo áðan að verið væri að reyna að búa til á réttmætan hátt leið til að fólk gæti fengið umráðarétt yfir börnum með því að fá staðgöngumóður, en það er gert með óréttmætri aðferð vegna þess að hún er á kostnað réttinda barnsins.

Það er óæskilegt að þurfa að ræða þessi mál og nefna í sömu andrá gæludýraverslanir en þannig er nú bara heimurinn. Því miður er fullt af fólki um allan heim, ekki síst konum, sem telur sig neyðast til þess í mörgum tilvikum að ganga fram á ystu nöf til að sjá sér farborða, hvort sem það með því að taka það hlutverk að sér að bera barn undir belti eða annað sem tíðkast um allan heim og allir vita að er ekki af því eðlilega sem við viljum byggja á. Það þýðir ekkert að vitna í fjölmiðla og fréttir máli sínu til stuðnings vegna þess að tíðarandinn þar í dag byggist á því að selja frétt en ekki segja hana. Hann byggist á ákveðnum málflutningi þar sem valið er úr það sem söluvænt er í frásögninni, draga ekki saman helstu hliðar málsins heldur að velja úr það sem kitlar hégómann. Það er auðvitað skömm fyrir fjölmiðla að rækta þennan þátt en hann er engu að síður staðreynd. Menn búa til ákveðinn farveg í umræðunni bara eftir því hvað söluvænt er. Þess vegna er svo stór hluti af fréttum á neikvæðum nótum. Fréttir hafa ekkert minna gildi ef þær eru jákvæðar, uppbyggilegar eða sýna fram á hluti sem eru góðir og traustir fyrir samfélagið, fyrir einstaklingana, fyrir stjórnmálin, fyrir lífið í landinu í heild, en á þessu er sofið af því að það er um að gera að kitla hégómann, sýndarmennskuna, froðusnakkið. Það er því miður hluti af þessu máli, finnst mér, að verið er að ganga inn á verksvið sem til að mynda Alþingi Íslendinga á ekki að bera ábyrgð á.

Sagt hefur verið í umræðunni að búið sé að vinna svo mikið í málinu. Guð minn almáttugur, hvað er verið að tala um? Á einhverjum 10–15 málþingum og fundum hér og þar sem áhugahópar bera saman bækur? Hvað ætli sé búið að vinna mikið í þessari almennu siðfræði þar sem einstaklingur getur þurft að berjast við það alla ævi að hafa ekki eðlilegan aðgang að þeim siðferðisgrunni sem hann á rétt á og á skilið? Það vita allir sem unnið hafa með fólki af einlægni og þeir sem unnið hafa með börnum að það eru engir eins viðkvæmir og börnin fyrir smæstu atriðum í því sem lúta að því að rækta kærleik, ást og umhyggju. (Forseti hringir.)

Við höfum margar leiðir nú þegar til að leysa úr ákveðnum vanda í þessum efnum þar sem fólk vill eignast börn. Ég held að það þurfi ekkert að auka neitt sérstaklega við það þótt alltaf megi ræða hluti og fara yfir þá og alls ekki með því að koma á einhverjum alþjóðlegum viðskiptum með fæðingu barna. Það yrði til minnkunar og skammar fyrir Ísland að ríða á vaðið í þeim efnum sem eitthvert fyrirmyndarsamfélag.

Við erum ósköp venjulegt samfélag í samfélagi þjóðanna, við höfum mörg hlunnindi, marga kosti en líka marga galla en við hljótum að byggja á því að réttur barnsins sé númer eitt, tvö og þrjú, að óvissunni sé eytt eða að hún sé að minnsta kosti ekki aukin. Það er hættan þegar kemur að staðgöngumæðrun. Það er hættan vegna þess að það er ekkert tryggt í þeim efnum.

Auðvitað veit maður að börn líta misjöfnum augum á þessa hluti í uppvexti sínum en það vita samt allir að þetta skiptir miklu máli. Tengslin við foreldra, tengslin við móður og föður, saman eða hvort í sínu lagi eftir atvikum, skipta miklu máli. Þau skipta svo miklu máli að ég held að það sé ekkert sem ræður eins miklu um farsæla framtíð hvers einstaklings og að þessir þættir séu ræktaðir. Það eru auðvitað ótal dæmi um að það er ekkert tryggt í þessum efnum, hvorki að barn hafi aðgang bæði að föður og móður, annað foreldrið getur dugað eins og báðir foreldrar saman eftir atvikum en við eigum ekki að rugga bátnum í þessum efnum. Við höfum hvorki rök né ástæðu til að grípa inn í á þennan hátt með alþjóðaviðskiptum, frekri aðför að því sem við getum kallað með sanni guðs gjöf.