140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[18:30]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég las merka og hrífandi bók um afar merka konu núna um jólin og mig langar til að byrja á því að lesa aðeins upp úr þeirri bók sem heitir Vigdís – kona verður forseti, og taka hér upp kafla sem heitir „Ástríður – ljósið í lífinu.“ Hann byrjar svona:

„Mig hafði alltaf langað til að eignast börn og þráði það meira en allt annað í lífinu. Það var alltaf ásetningur minn og einn hvatinn að hjónabandinu. Við Ragnar vorum ekki alveg samstillt í því en ég var harðákveðin og gerði ítrekaðar tilraunir til þess að eignast barn. Mér lánaðist hins vegar ekki að halda þeim og missti fóstur. Þetta var geysilega erfitt en ég vildi ekki gefast upp. Sú tilfinning var sterk og ágerðist bara að lífinu væri ekki lifað til fullnustu nema hafa alið barn.“

Síðan segir þegar hún fær barn sitt í fangið:

„Þetta var algjörlega ólýsanleg stund, mesta hamingjustund ævi minnar. Ég sat bara með barnið í fanginu og grét sannkölluðum gleðitárum. Yfir mig helltust allar þær tilfinningar þessu tengdar sem höfðu brotist um í mér gegnum árin. Í áratugi hafði hugsunin um barn hvílt á mér og oft ekki látið mig í friði. Nú sat ég með yndislegt nýfætt barn í fanginu. Strax þarna urðu böndin á milli okkar Ástríðar gríðarlega sterk. Ég áttaði mig samstundis á því að þetta var mesta gæfa sem mér hafði hlotnast og allar götur síðan hefur Ástríður verið ljósið í lífi mínu.“

Og síðar:

„Á þessum tíma hvíslaði ég að Ástríði mínum dýpstu tilfinningum sem brutust þarna fram, þakklætinu til blóðmóðurinnar, konunnar sem gerði mér þann mikla greiða að bera þig undir belti, eins og ég sagði henni. Ótal sinnum hvíslaði ég að henni að hún væri það sem mig hefði langað mest til að eignast um alla mína ævi. Ég var yfirkomin af gleði og þakklæti yfir að fá að eiga hana fyrir dóttur.“

Vigdís lýsir líka í þessum kafla baráttu sinni sem einstæðri konu fyrir að fá að taka að sér barn, baráttu sinni við kerfið. Og mig langar að segja það íslensku samfélagi til hróss að hafa ekki bara kosið þessa merku konu sem forseta, heldur hafa kosið einstæða móður sem forseta, því að það er sannarlega ekki alls staðar gjaldgengt og langt í frá.

Nú veit ég ekkert hvað Vigdís Finnbogadóttir, sem á svona fallegan hátt lýsir lífi sínu og sinni mestu gæfu, finnst um staðgöngumæðrun enda snýr það ekki að þessu. Mig langaði bara til að lesa þetta vegna tengsla ættleiðingarforeldra við ættleidd börn sín og vegna þeirrar spurningar sem ítrekað hefur verið varpað til mín í þessu máli á þeim fundum sem ég hef setið og hefur líka verið snert á hér í dag. Það er sú spurning hvort það að eiga og fá að ala upp barn séu mannréttindi. Í mínum huga er svarið ósköp einfalt: Nei, það eru ekki mannréttindi, það eru ekki sjálfsögð mannréttindi. Það er hins vegar fyrir svo ótal marga, ef ekki langsamlega flesta, einhver mesta blessun í lífi þeirra, einhver mesta hamingja að fá að eiga og ala upp börn. Þessi stund þakklætis þeirra sem hafa átt erfitt með að eignast börn, þakklætis til þeirra sem til dæmis gefa sæði — eins og sú sem hér stendur getur borið vitni um — þakklætis til þeirra sem gefa egg, þakklætis til þeirra sem gefa börn sín til ættleiðingar, þ.e. þakklætið fyrir að fá að eiga og ala upp barn, það þakklæti er væntanlega eitt það dýpsta sem fólk getur fundið fyrir.

Nei, það eru ekki mannréttindi en það er óendanleg blessun. Íslenskt samfélag hefur, og fyrir það er ég m.a. þakklát, sagt ítrekað í verki og löggjafarsamkundan hér að það ætli sér og muni ganga mjög langt til þess að hjálpa fólki að eignast barn. Það er þess vegna sem íslenskt samfélag er svo framarlega sem raun ber vitni hvað varðar tæknifrjóvgun. Eins og hefur komið fram í umræðunni í dag leyfum við ýmislegt sem ekki er leyft annars staðar. Við leyfum augljóslega gjafasæði, við leyfum gjafaegg. Við leyfum ekki bara gagnkynhneigðum pörum að fá aðgang að þessari tækni heldur líka samkynhneigðum pörum, þ.e. samkynhneigðum konum. Við leyfum einhleypum konum aðgang að henni, sem ber vitni um þennan vilja samfélagsins til að hjálpa fólki að eignast börn.

Það mál sem hér liggur fyrir hefur, eins og ítrekað hefur komið fram, tekið miklum breytingum. Mig langar að nefna þá þrjá þætti sem mestu máli skipta og byrja þar á rétti barnsins. Hver er réttur barna í okkar samfélagi eða yfir höfuð í heiminum í dag? Ég held að það megi fullyrða að við getum gert afar margt til þess að gera íslenskt samfélag að barnvænna samfélagi, að betra og hlýrra samfélagi fyrir börn. Þar eigum við enn langa leið fyrir höndum.

Það er einnig hægt að fullyrða að margir foreldrar og öll höfum við upplifað það sem foreldrar að finnast við ekki standa okkur í stykkinu. Það er óneitanlega krefjandi verkefni að ala upp barn og börn alast hér upp við oft ólíðandi aðstæður. Þetta þingmál, það nefndarálit sem hér liggur fyrir, fer fram á það að þegar kemur að barni sem getið er með staðgöngumóður sé með ítarlegri hætti en í nokkurri annarri stöðu sem ég að minnsta kosti þekki til hérlendis tryggt að það heimili og þeir foreldrar sem barnið á að fá til að alast upp hjá séu kærleiksríkir og á allan hátt til þess færir að ala upp barn með góðum hætti. Það er einnig rétt sem hér hefur komið fram að í þessum tilfellum, þeim fáu tilfellum sem fólk er að líta til þessa úrræðis, hefur það reynt allt. Það hefur eytt árum og jafnvel áratugum af ævi sinn í að reyna að eignast barn og þetta er því sannkallað óskabarn.

Á þeim fundum sem ég hef setið að undanförnu um þessi mál hefur fólk í rauninni ekki verið með svo miklar efasemdir um hvort þarna sé á rétt barnsins hallað, þ.e. það eru ekki miklar efasemdir um að hægt sé að tryggja að barnið fái góða foreldra, kærleiksríka foreldra, og góðar uppeldisaðstæður og jafnvel betri en mörg börn sem hér verða til við ýmsar aðstæður. En það er sett spurningarmerki við rétt barnsins til að þekkja kynforeldra sína.

Þetta er vissulega spurning sem á mikinn rétt á sér og þarf að velta fyrir sér. Löggjafinn hérlendis og lagaumhverfið, umhverfið allt, hefur hins vegar ítrekað talað í þessu máli. Gjafasæði erlendis er ónafngreint og hér eru að alast upp börn sem þekkja ekki kynuppruna sinn, ýmis ættleidd börn munu aldrei geta þekkt kynuppruna sinn vegna þeirra aðstæðna sem þau voru ættleidd við, sum börn eru skilin eftir úti á götu o.s.frv. Þetta er vissulega eitthvað sem ég ber fullkomlega virðingu fyrir að velt sé upp, en þá þarf að taka það mál sérstaklega fyrir og líta á tæknilöggjöfina hérlendis, alla eins og hún leggur sig. Ef þetta er einn mikilvægasti réttur barns ætlar kannski löggjafinn að spyrja sig hvort hann vilji að fram fari faðernispróf vegna allra barna sem getin eru og fæðast, því að það er vissulega þó nokkur hluti barna — eins og hefur komið fram í rannsóknum víða, ýmsar athyglisverðar tölur meðal annars frá Svíþjóð — rangt feðraður. Ef þetta er einn mikilvægasti réttur barna ætti þá ekki að fara fram faðernispróf til að ganga úr skugga um að þau séu ábyggilega með það alveg á hreinu hverjir kynforeldrar þeirra eru?

Það er hægt að taka þetta svið alveg sérstaklega fyrir en eins og ég segi, það er ekki neitt í þessu máli hvað þetta varðar sérstaklega sem er öðruvísi en það sem hér hefur verið stimplað sem löglegt og siðlegt í tæknifrjóvgunarumræðunni og umhverfinu hérlendis. Ég held að það sé líka gott að hafa í huga í þessu samhengi, eins og hér var komið inn á rétt áðan, að okkur ber skylda til að tala um þessi mál af nærgætni og varfærni vegna þess einmitt að nú þegar eru börn í íslensku samfélagi getin með staðgöngumæðrun og í raun hafa þau börn mun betri möguleika á að þekkja kynforeldra sína en til dæmis börn sem eru getin hér í tæknifrjóvgunarstöð þar sem meðal annars einhleypar konur og fleiri geta barn.

Það er margítrekað að þetta sé númer eitt, að tryggja rétt barnsins í þessum málum. Þá kemur að rétti konunnar, þ.e. rétti staðgöngumóðurinnar. Um eitt hljótum við að geta verið sammála, og ég er svo sannarlega á þeirri skoðun, að það sé hreint viðurstyggilegt og hræðilegt hvernig til dæmis í þróunarlöndum — hér hefur verið nefnt Indland m.a. — hefur byggst upp iðnaður staðgöngumæðrunar þar sem konan er svipt í reynd rétti yfir eigin líkama, meðgöngu og fæðingu og öllu sem því tilheyrir og þetta gert að eins konar viðskiptamáli. Þetta er náttúrlega eins ömurlegt og hægt er að hugsa sér.

Ég get hins vegar í hjarta mínu ekki lagt þetta að jöfnu — engan veginn og mér finnst grundvallarmunur þar á, rétt eins og kynlíf getur verið viðurstyggilegt og ógeðslegt en getur jafnframt verið stórkostlegt og gefandi — við konur sem af frjálsum og fúsum vilja virkilega langar til að ganga með barn til dæmis fyrir systur sína eða góða vinkonu, langar til að upplifa það og gefa þá gjöf sem það er, og þá skil ég ekki hvað er rangt við það. Mér finnst það bara fallegt. Það getur verið falleg upplifun fyrir konuna sem það gerir, falleg fyrir barnið og fyrir hina verðandi foreldra barnsins. Ef tryggt er með öllum hætti að þetta sé sjálfstæð ákvörðun konunnar og vilji hennar, hennar virkilega löngun, jafnvel þrá, að hún og eingöngu hún hafi yfirráð yfir sinni meðgöngu og sinni upplifun og geti svo, hún er að sjálfsögðu móðirin þegar barnið fæðist, fengið tíma til að snúast hugur. Rétt eins og við lítum ekki á það sem rangan gjörning — ég sé ekkert rangt við það — að gefa barn til ættleiðingar til foreldra sem munu elska það og hlúa að því þá er það ekki röng gjörð — alla vega ekki í mínum huga — siðferðilega röng gjörð að þótt kona fæði barn verði aðrir foreldrar þess og uppalendur.

Það er sagt um staðgönguforeldra, því er oft fleygt fram: Af hverju ættleiðir fólk ekki? Ég get tekið undir það í prinsippinu. Mér finnst nákvæmlega enginn munur á því að bera sjálf barn undir belti og fæða það og að ættleiða barn. Ég á son sem ég ættleiddi og þurfti að fara í gegnum ættleiðingarferli vegna þess og svo dóttur sem ég bar undir belti. Ég finn nákvæmlega engan mun á tengslum mínum við þessi börn eða að það sé nokkur munur á okkar móður-barns sambandi. En það er bara svo auðvelt að segja: Ég ættleiði bara. Hér er fullt af dásamlegum foreldrum sem hafa beðið ár eftir ár og fá ekki að ættleiða vegna þess að við höfum ekki vald á því, íslenskt samfélag, heldur er þetta oft mjög flókið mál og fólki gert mjög erfitt fyrir. Í þessu máli sem nota bene er ekki frumvarp heldur bara vilji til þess að við mjög ströng skilyrði, mjög strangt eftirlit og með mjög þröngri skilgreiningu á því hverjir eigi yfir höfuð að geta farið í þetta ferli þá sé ég hreinlega ekki hvað er rangt við það og hvers vegna þetta ætti ekki að fá frekari framgang. Eins og hér hefur komið fram þegar frumvarp kemur inn í þingið með öllum þeim takmörkunum og áréttingum sem eru í þingmálinu og nefndarálitum getur fólk að sjálfsögðu tekið endanlega ákvörðun um hvað því finnst rétt í þessum efnum.

Talað er um að það vanti frekari rannsóknir. Nú þegar liggur fyrir fjöldi rannsókna og ég verð að segja að ég er svolítið viðkvæm fyrir einmitt þessari röksemdafærslu vegna þess að þegar talað var um hvort hvort gott væri eða rétt að samkynhneigðir fengju að ala upp barn þá var einmitt mikið talað um að það vantaði svo mikið af rannsóknum. Hvað hafa rannsóknir síðan leitt í ljós? Jú, þær hafa leitt í ljós að börn til dæmis lesbískra kvenna, lesbískra mæðra, koma yfirleitt betur út í þessum rannsóknum. Hvað þýðir það, hvaða þýðingu hefur það?

Í þessu samhengi hljótum við einfaldlega að geta sagt: Þetta getur verið gjöf til allra viðkomandi þar sem mannkærleikur og hlýja er í fyrirrúmi. Það er okkar að tryggja að það sé á þeim grunni en ekki skrumskælt á afbrigðilegum forsendum. Þegar fólk segir að þetta sé ekki brýnt mál þá er ofboðslega auðvelt að segja það þegar maður á sjálfur börn, það er ofsalega auðvelt. En hver ætlar að segja við fólk sem hefur beðið í fleiri ár eftir því að fá að gefa barni fallegt umhverfi, fallegt uppeldi: Þetta er ekki brýnt mál, þið skuluð bara bíða eftir að við hugsum málið, og tökum okkur það vald hér að ákveða að þetta sé ekki brýnt?

Mér finnst alla vega að það eigi að hafa það í huga vegna þess að ef við getum ekki skilgreint í prinsippinu þegar þetta er vel gert að þetta sé rangt, hvers vegna má málið þá ekki fá frekari framgang? Og nota bene eins og ég segi, það er ekki verið að leyfa þetta, heldur (Forseti hringir.) leggja til ítarlegan fjölbreyttan starfshóp sem kemur síðan með vandað frumvarp. (Forseti hringir.)

Eitt að lokum, frú forseti, og það er þetta: Hér hefur verið talað um rétt samkynhneigðra karlmanna til að (Forseti hringir.) eignast barn með þessum hætti og svo það sé sagt finnst mér prívat og persónulega að þannig ætti það að vera, (Forseti hringir.) að þeir ættu, rétt eins og konur sem ekki geta af læknisfræðilegum ástæðum átt barn, að fá að geta tekið að sér barn með þessum hætti. — Ég heyri að frú forseti hringir bjöllunni og ég ætla að virða það.