140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[18:51]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu um staðgöngumæðrun, afar viðamikið og margslungið mál sem verðskuldar ítarlega umræðu í þinginu og að við vöndum okkur mjög í hverju skrefi.

Fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, skipaði árið 2009 starfshóp um ákveðin álitamál sem þyrfti að skoða í samhengi við staðgöngumæðrun og hugsanlega framgöngu þess í íslensku samfélagi. Hann skilaði áfangaskýrslu í febrúar 2010 eins og ágætlega er reifað í þingsályktunartillögunni. Þar var mælt gegn samþykkt staðgöngumæðrunar, m.a. á þeim forsendum að ekki hefði átt sér stað nægileg umræða í samfélaginu og að skýra þyrfti betur tiltekin álitamál. Það er alltaf erfitt að leggja mat á það hvenær umræða í málum sem þessum er orðin nægileg en stóra málið er að ná niðurstöðu í þeim álitaefnum sem málinu tengjast.

Flutningsmenn tillögunnar leggja málið þannig upp að við Íslendingar tökum okkur þá stöðu að lögfesta heimild til staðgöngumæðrunar en eingöngu í velgjörðarskyni, þ.e. að ekki verði heimilt neins konar viðskiptasamband milli staðgöngumóður og væntanlegra foreldra þar sem greiðslur gengju á milli. Um þetta snýst málið sem við þurfum að taka afstöðu til í þinginu, þ.e. að svara spurningunni: Erum við tilbúin að stíga þetta skref og höfum við nægar upplýsingar um þær afleiðingar sem slík ákvörðun mundi hafa í okkar samfélagi?

Þeir sem tala fyrir þessu máli vísa til þeirra gildu sjónarmiða að vilji og löngun til barneigna sé grundvallarþörf í mannlegu samfélagi og undir það get ég sannarlega tekið sem fjögurra barna faðir. Samúð mín og skilningur er mikill á aðstöðu þeirra einstaklinga sem ekki geta með náttúrulegum hætti eignast börn og vilja kanna til þrautar þá kosti sem eru í stöðunni varðandi það að eignast barn, hvort sem það eru tæknifrjóvganir, ættleiðingar eða aðrir kostir. Staðgöngumæðrun er vissulega einn slíkra kosta en mjög skiptar skoðanir eru um ágæti þeirrar leiðar, sérstaklega út frá ýmsum siðferðilegum álitaefnum en einnig lagalegum og læknisfræðilegum spurningum og af mannúðarástæðum.

Höfum í huga að álitaefnin eru fjölmörg og þau eru sum hver reifuð í upprunalegu þingsályktunartillögunni, önnur í þeim nefndarálitum sem liggja fyrir í þessari umræðu og síðan í fjölmörgum umsögnum. Flutningsmenn tillögunnar reifa að minnsta kosti 14 mikilvægar spurningar sem þurfi að leita svara við og leiða til lykta í þeirri frumvarpsvinnu sem lagt er til að fari í gang. Það er hægt að taka undir flest það sem þar kemur fram en spurningarnar eru meðal annars eftirfarandi:

Hvernig verður hagur barnsins best tryggður?

Hver er réttur barnsins, m.a. til að þekkja uppruna sinn?

Hvernig verða velferð, sjálfræði og réttindi staðgöngumóður best tryggð?

Hvaða skilyrði þarf staðgöngumóðir að uppfylla?

Á að heimila að verðandi foreldrar greiði staðgöngumóður útlagðan kostnað vegna meðgöngunnar?

Hvernig á að taka á því ef verðandi foreldrar skipta um skoðun á meðgöngutímanum?

Hvaða skilyrði þurfa verðandi foreldrar að uppfylla, ef einhver?

Hvernig má tryggja faglega afgreiðslu á umsóknum og leyfum, sem og skýrt eftirlit og eftirfylgni með framkvæmdinni?

Enn fleiri spurningar eru reifaðar í álitum 1. og 2. minni hluta velferðarnefndar, svo sem þessar:

Hvernig verður komið í veg fyrir staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni?

Hvernig verður tryggt að í raun og veru sé um velgjörð að ræða?

Hver ber kostnaðinn ef staðgöngumóðir verður fyrir varanlegu heilsutjóni vegna meðgöngunnar?

Verður staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni heimiluð fyrir alla þjóðfélagshópa, þar með talið samkynhneigða karlmenn?

Ég hef reifað allmargar spurningar sem bornar eru fram í tillögunni sjálfri af flutningsmönnum og síðan 1. og 2. minni hluta velferðarnefndar. Fleiri spurningar vakna en vandamálið er að hér er um risastórar siðferðilegar spurningar að ræða og niðurstaðan er fráleitt einhlít fyrir fram. Þar liggur hundurinn grafinn. Það er kannski ótímabært að gefa sér að við finnum ásættanleg svör við þessum spurningum, svör sem réttlæta það að við stígum það skref að heimila með lögum þessa starfsemi sem er mjög umdeild í löndunum í kringum okkur og ekki leyfð til dæmis á Norðurlöndum sem við viljum garnan bera okkur saman við sem ákveðnar fyrirmyndir í velferðarmálum á alþjóðavettvangi.

Ýmis rök hafa verið dregin fram sem ættu að hvetja okkur til að fara vandlega í gegnum málið. Bent hefur verið á að konur geti orðið fyrir óbærilegum félagslegum þrýstingi frá ættingjum eða öðrum nákomnum um að taka að sér staðgöngumæðrun fyrir til dæmis systur, frænkur eða nákomna vini. Hvernig er hægt að tryggja að ekki sé í reynd um dulda þvingun að ræða fyrir verðandi staðgöngumóður? Hvernig er hægt að tryggja hag og velferð kvenna sem takast á hendur þessa skuldbindingu en skipta um skoðun meðan á meðgöngu stendur og treysta sér ekki til að láta barnið frá sér? Eða á hinn bóginn ákveða að halda gerða samninga en finna fyrir miklu og alvarlegu þunglyndi sem jafnvel getur valdið varanlegum andlegum skaða? Höfum í huga að slík dæmi eru til, þekkt dæmi erlendis frá um konur sem jafnvel voru fylgjandi og börðust fyrir staðgöngumæðrun en upplifðu síðan mikið þunglyndi eftir fæðingu og báru þungar andlegar byrðar um árabil.

Því hefur verið haldið fram að það sé betra að leyfa staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni á Íslandi í því ljósi að fyrir liggur að Íslendingar hafa verið og eru tilbúnir að fara út í heim til að tryggja sér þjónustu staðgöngumæðra, t.d. í þróunarlöndunum, og mynda viðskiptasamband við konur sem af einhverjum ástæðum, t.d. út úr neyð, finna sig knúnar til að stíga þetta skref.

Því er haldið fram að reynsla annarra þjóða, t.d. í Bretlandi og Bandaríkjunum, sýni að það að lögfesta heimild í heimalandinu til staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni komi ekki í veg fyrir að einstaklingar leiti samt áður til kvenna í þróunarlöndunum, t.d. af því að þar séu ekki sambærilegar hömlur á lögum og regluverki eða kostnaður mun minni. Ég tel að í reynd séu allir aðilar máls, þeir sem bera fram þingsályktunartillöguna og hinir sem hafa efasemdir um hana, sammála um að fyrir liggi fjölmörg álitaefni sem eftir er að taka afstöðu til. Hins vegar deilum við um það hvort Alþingi eigi engu að síður að taka ákvörðun um að heimila staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni eða láta niðurstöðu um lagaheimild og frumvarp ráðast í vinnu starfshóps sem skoði allar hliðar málsins með opnum huga.

Virðulegi forseti. Ég viðurkenni að ég hef efasemdir um að við getum með góðri samvisku ákveðið hér og nú að það eigi að semja frumvarp sem heimili staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Hins vegar get ég ekki sagt að ég leggist gegn málinu sem slíku. Ég er tilbúinn og vil skoða það með opnum huga og legg á það áherslu, en tel að þær veigamiklu athugasemdir og gagnrýni sem koma fram hjá velflestum umsagnaraðilum eigi að vera okkur tilefni til að staldra við, skoða vandlega kosti og galla og ákveða síðan hvernig við tökum á málinu þegar við höfum náð niðurstöðu sem við erum ásátt um í þeim álitaefnum sem ég hef rakið.

Ég styð því þá breytingartillögu sem Valgerður Bjarnadóttir og fleiri hafa lagt fram þar sem lagt er til að skipaður verði starfshópur sem fari vandlega yfir fyrrnefnd álitamál og skili niðurstöðum til velferðarráðherra.

Ég vil líka segja að ég tel eðlilegt að slíkum starfshópi yrði gert að skila niðurstöðum sínum innan skilgreinds tímaramma, t.d. fyrir næstu áramót, svo hægt verði að taka ákvörðun um næstu skref og efnislega og upplýsta afstöðu til málsins á þessu kjörtímabili.

Að lokum vil ég láta í ljós þá von að við náum góðri samstöðu um afgreiðslu þessa máls í þinginu því að aðalatriðið er að við vinnum af vandvirkni og virðingu fyrir mismunandi sjónarmiðum sem öll eiga rétt á sér, bæði þeirra sem eru málinu fylgjandi en líka hinna sem telja að á því séu margir annmarkar sem við þurfum að taka tillit til.