140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[19:04]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það að við þurfum að ræða öll þessi álitamál eins og bæði meiri hluti og minni hluti í þessu máli hefur ítrekað sagt. Spurningin er líka hvernig við gerum það best og í þessari tillögu er einmitt talað um að fara í gegnum þessi álitamál. Það á að byggja vandaða og fjölþætta vinnu um þessi álitamál öll, og strangari skilyrði en hér eru lögð fram er vart hægt að hugsa sér. Væntanlega mun taka þó nokkuð langan tíma að vinna þessa vinnu.

Erum við sem löggjafi ekki betur sett að taka ákvörðun í málinu ef hingað kemur frumvarp sem fer í gegnum ítarlegt umsagnarferli fjölbreyttra aðila þar sem liggur líka að baki greinargerð og mikil vinna sem starfshópurinn mun leggja í? Ég skil og virði það ef fólk er í prinsippinu á móti staðgöngumæðrun og ég virði alveg þá skoðun, ég virði líka að sjálfsögðu þá sem hafa áhyggjur vegna þess að við þurfum auðvitað að gera þetta rétt eins og ég kom inn á í ræðu minni. Þetta getur tekið á sig hræðilegar birtingarmyndir, en þetta getur líka verið einstaklega falleg og kærleiksrík gjöf fyrir alla aðila. Þá er spurningin einmitt: Hvernig tryggjum við að svo verði?

Hvað er unnið með því að hindra að þessi mikla vinna leiði að lokum til frumvarps sem þingið tekur síðan afstöðu til, frumvarps sem á eftir að fara í þetta ítarlega umsagnarferli o.s.frv?

Mig langaði að spyrja (Forseti hringir.) hv. þingmann um þrýsting, um það hvernig megi koma í veg fyrir að konur taki ákvörðun út frá þrýstingi. Það er spurning sem á við í fjölmörgum tilfellum, t.d. um fóstureyðingar og ýmislegt, (Forseti hringir.) sem þarf svo sannarlega að ræða. En bjallan hringir aftur þannig að ég læt máli mínu lokið.