140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[19:39]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Já, stundum getur það verið umhugsunarefni hvort við séum að fylgja Norðurlöndunum. En mig langaði til að ítreka fyrri spurningu: Finnst hv. þingmanni að við eigum, í þeirri viðleitni að fylgja Norðurlöndunum alfarið, að fara til baka í tæknifrjóvgunarmálum, alveg óháð þessari umræðu um staðgöngumæðrun?

Ég vil nefna annað gríðarlega mikilvægt atriði sem mér vannst ekki tími til að koma inn á í ræðu minni. Ein stærsta spurningin sem virðist vakna hjá fólki varðandi það hvort þetta sé rangt — hingað til hefur enginn, svo að ég hafi heyrt, treyst sér til að segja að ef ég sem sjálfstæð kona vil ganga með barn fyrir systur mína þá sé það í eðli sínu rangt. Fólk hefur hins vegar áhyggjur, eðlilegar áhyggjur, af þvingun, að konan sé í raun ekki að gera þetta af fúsum og frjálsum vilja o.s.frv.

Hér er konum leyft að gefa egg og ganga þarf úr skugga um að þær séu ekki þvingaðar til þess. Hér eru fóstureyðingar leyfðar og fer það í gegnum ferli til að ganga úr skugga um að ekki sé verið að þvinga konur til þess. Hér er ýmislegt leyft og kerfið hefur tekið að sér, ef svo má segja, að tryggja að ekki sé verið að neyða konur til ákveðinna hluta. Hvað þetta varðar held ég nú að flestir beri virðingu fyrir því að kona bjóðist til að ganga með barn fyrir systur sína og átti sig á að það er gríðarlega stórt og mikið mál; flestir mundu segja að það væri til dæmis mun stærra mál en að gefa egg o.s.frv. Telur þingmaðurinn að það sé möguleiki, rétt eins og við gerum í ýmsum stórum (Forseti hringir.) álitaefnum, að tryggja að ekki sé verið að beita þvingun heldur (Forseti hringir.) gera fólk hlutina af fúsum og frjálsum vilja?