140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Mig langar aðeins að blanda mér í umræðu um skýrslu sem kynnt var í norskum fjölmiðlum í gær um EES-samninginn og ummæli utanríkisráðherra í tengslum við þá skýrslu og kannski stöðuna í Noregi almennt, að maður telur.

Hæstv. utanríkisráðherra sagði í gær að hann tæki undir mikið valdaframsal sem fælist í EES-samningnum. Það er kannski fróðlegt fyrir okkur að bera saman stöðuna á Íslandi og í Noregi því að hún er um margt ekkert ólík. Í Noregi er 80% andstaða við Evrópusambandsaðild, á Íslandi er það 60–70%. Báðar þessar þjóðir eru mjög líkar að uppbyggingu og eiga miklar auðlindir og umræðan er á svipuðum nótum. Þessi skýrsla er gríðarlega stór, þetta eru 900 blaðsíður, og hún verður áfram til umræðu í norskum fjölmiðlum og norskum stjórnmálum á næstu mánuðum og missirum.

Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur Íslendinga í ljósi þess að staðan er svipuð hér á landi og í Noregi að við fylgjumst vel með þeirri umræðu sem fer fram í Noregi um þetta mál. Ég held að öllum sé ljóst að Noregur mun ekki ganga í Evrópusambandið. Hins vegar er ekki ótrúlegt að þessi skýrsla muni hafa í för með sér einhverjar breytingar. Kann að vera að Noregur sé að undirbúa það að kalla eftir endurskoðun á EES-samningnum? Ég efast um að Noregur ætli að segja sig frá EES-samningnum, en engu að síður er mikilvægt að við Íslendingar leitumst án allra fordóma við að standa við hlið Norðmanna og taka þátt í þessari vinnu með opnum hug vegna þess að staðan er mjög lík hjá Íslandi og Noregi hvað þetta snertir.