140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[15:37]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um tillögu til þingsályktunar um að fela velferðarráðherra að skipa starfshóp sem skrifi frumvarp sem heimili staðgöngumæðrun. Ég þakka hv. velferðarnefnd og þingmönnum öllum fyrir mjög vandaða og góða vinnu í þessu máli. Þetta er mál sem hefur fengið mikla og ítarlega skoðun á þinginu. Málið hefur fengið talsverða umræðu í samfélaginu og í fræðasamfélaginu en þetta er rétt byrjunin. Verði tillagan samþykkt munu allir færustu sérfræðingar, öll vönduðustu álit, allir hagsmunaaðilar og við hér á þinginu fá tækifæri til að koma sjónarmiðum okkar að, leysa úr þeim álitamálum sem sett hafa verið fram og vonandi mun okkur takast að smíða framúrskarandi löggjöf sem passar við íslenskar aðstæður. Ég vil að endingu ítreka þakkir mínar til þingheims (Forseti hringir.) fyrir vönduð vinnubrögð í málinu.