140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[15:39]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um tillögu til þingsályktunar um staðgöngumæðrun þar sem lagt er til að Alþingi álykti að fela velferðarráðherra að skipa starfshóp sem undirbúi frumvarp til laga sem heimili staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Í nefndaráliti eru starfshópnum gefnar ákveðnar leiðbeiningar um vinnuna. Lagt er til að hann búi til stífan ramma innan hins opinbera heilbrigðiskerfis fyrir pör með læknisfræðilegan vanda. Í breytingartillögu sem verður til umfjöllunar líka er lagt til að skipaður verði starfshópur sem skoði álitamál. Það hefur í raun og veru nú þegar verið gert. Einnig er gert ráð fyrir að ráðherra flytji síðan Alþingi skýrslu um málið.

Í tillögum meiri hlutans er gert ráð fyrir að við stígum aðeins stærra skref þar sem samið yrði frumvarp. Það er mjög algengt að skipaðir séu starfshópar sem skila inn frumvarpsdrögum með greinargerð. Síðan mundi ráðherrann eða hugsanlega nefnd þingsins leggja málið fram. (Forseti hringir.) Þetta er mjög mikilvægt innlegg inn í þá viðkvæmu umræðu sem við erum nú að fara að greiða atkvæði um. Það er ekki verið að greiða atkvæði um að lögleiða eigi staðgöngumæðrun heldur einungis að við séum að fara af stað með vandaða vinnu til að skoða þau mál.