140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[15:42]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Mig langar að vekja sérstaklega athygli á þessu máli vegna þess að hér er um þingmannamál að ræða sem er að fara í atkvæðagreiðslu. Það er ekki mjög algengt að það gerist. Við í Hreyfingunni höfum lagt til að öll mál endi hér í þingsal í atkvæðagreiðslu, það sé hin eina rétta lýðræðislega niðurstaða þeirra. Hvaða álit svo sem menn hafa á þessu máli, hver og einn, þá er aðferðin sem hér er verið að nota til að ljúka málinu eftirbreytniverð og verður vonandi svo um fleiri mál.

Margir þingmenn hafa unnið ötullega að þessu máli og því er það komið á þann stað sem það er komið í dag. Það er gott mál. Ég hefði kosið að þingmenn ynnu jafnötullega að öðrum málum sem eru mun brýnni að mínu mati, eins og til dæmis lýðræðisumbótum eða skuldum heimilanna. Ég tel æskilegt að fá þau mál inn í þingið þannig að afstaða þingmanna allra komi fram í þeim málum, en þetta mál fær einhvers konar niðurstöðu. Aðalatriðið er að um er að ræða þingmannamál sem fer í atkvæðagreiðslu (Forseti hringir.) og það er vel.