140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[15:48]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hér er um merkilegt mál að ræða. Það er eitt af þeim málum sem við höfum tekið upp hér af því að tækninni í læknavísindum hefur fleygt svo mikið fram að endurskoða þarf löggjöfina til að koma til móts við þá möguleika sem í boði eru með nýrri tækni.

Ýmsir geta ekki átt börn nema nýta sér staðgöngumæðrun þannig að þessi möguleiki er fær og þá er spurning: Hvaða leið viljum við fara við að leyfa staðgöngumæðrun án þess að lenda í þeim vandræðum sem einnig geta komið upp á borðið í þessum málum, til dæmis þegar grunur vaknar um að börn séu seld, sem er auðvitað skelfilegt ef rétt er. Ég tel að við getum komið í veg fyrir það. Ég bendi á að í Kanada voru þessi mál rædd í gríðarlega langan tíma og að lokum komust menn að því að þeir vildu heimila staðgöngumæðrun. Ég er búin að gera upp hug minn, ég tel að við eigum að heimila staðgöngumæðrun með þeim skilyrðum sem hér eru undirstrikuð þannig að ég tel eðlilegt að við klárum þetta mál. Ég segi já við þessu máli.