140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[15:52]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég get ekki stutt þessa tillögu óbreytta eins og hún er lögð fram en hefði verið sáttur við frágang málsins á grundvelli þeirrar breytingartillögu sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir og fleiri flytja. Ástæðan er ósköp einföld, ég hef ekki sannfæringu fyrir því að það sé rétt á þessu stigi að ákveða og ganga frá því að starfshópi verði falið það verkefni beint út að semja frumvarp sem heimila eigi staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Ég get enn síður sætt mig við að starfshópnum séu sett þau skilyrði að slíkt frumvarp skuli lagt fram svo fljótt sem verða má. Mér finnst það ekki vera sá vandaði og yfirvegaði farvegur sem menn eigi að setja þetta viðkvæma mál í.

Ég hefði hins vegar verið mjög sáttur við frágang málsins eins og breytingartillagan hefði gengið frá því einfaldlega vegna þess að ég er ekki þeirrar skoðunar á þessum tímapunkti að þetta eigi ekki að gera, mögulega að undangengnum vönduðum undirbúningi og þá kannski í formi einhvers konar heimildar til að veita leyfi eða heimildir fyrir slíku í mjög afmörkuðum og skilgreindum tilvikum. En mér finnst ekki tímabært að setja almenna löggjöf sem semja á með frumvarpi (Forseti hringir.) sem gengur í þessa átt, ég hef ekki sannfæringu fyrir því og verð því að greiða atkvæði gegn tillögunni. Mér þykir það reyndar miður, ég hefði talið heillavænlegra fyrir Alþingi að sameinast um áframhaldandi vinnu að málinu á einhverjum þeim grundvelli sem sæmileg sátt hefði verið um.