140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[15:58]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Hér er verið að leggja til undirbúning að smíði frumvarps sem heimili staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Ég er, sem kona og femínisti, mjög hlynnt slíkri frumvarpssmíð. Ég tel að með því að taka afstöðu til staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni sé staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni hafnað með öllu. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að vanda til þess verks eins og tillagan gerir ráð fyrir og mjög brýnt að skorast ekki undan þeim áleitnu siðferðilegu spurningum sem veruleikinn færir okkur í hendur vegna þessa máls, vegna staðgöngumæðrunar og tæknigetu sem orðin er að veruleika, heldur sé það skylda okkar að takast á við þær spurningar og leiða þær til lykta. Það sýnist mér verða niðurstaðan, nái þetta mál hér fram að ganga. (Forseti hringir.) Ég fagna því og vil óska öllum áhugamönnum um þetta mál hjartanlega til hamingju með þær málalyktir sem mér sýnast vera að nást hér.