140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

vörumerki.

269. mál
[16:46]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég skal reyna að svara samkvæmt bestu getu. Ég er ekki útlærður í þessum fræðum (Gripið fram í: Nú?) á skömmum tíma og hugsanlega eru á þingi menn sem þekkja málið fullt eins vel vegna forsögu þess hér.

Varðandi ferli þess var það á undirbúningsstigi ítarlega rætt og í samráði við Félag umboðsmanna vörumerkja og einkaleyfa. Málið nýtur líka góðs af þinglegri meðferð á 139. löggjafarþingi. Þá bárust til dæmis umsagnir frá ríkisskattstjóra og Viðskiptaráði Íslands sem gerðu ekki athugasemdir við frumvarpið. Þá var sömuleiðis unnið úr umsögn frá áfrýjunarnefnd hugverkaréttinda á sviði iðnaðar. Í framhaldinu voru reyndar gerðar tilteknar breytingar á orðalagi 2. gr. frumvarpsins frá upphaflegri gerð þess sem varða vörumerki sem ekki má skrá og sömuleiðis 13. gr. sem lýtur að aðgangi að vörumerkjaskrá. Ég held því að reynt hafi verið að vinna þetta á grundvelli gagna sem lágu fyrir þegar frumvarpið kom upphaflega fram en líka að taka hliðsjón af því sem gagnlegt kom fram í ábendingum og umsögnum í þinglegri umfjöllun málsins. Sama gildir um ábendingar frá Einkaleyfastofu.

Varðandi umboðsmannsþáttinn skil ég það svo að það sem þar sé eingöngu verið að gera sé að hætta að binda umboðsmanninn við Ísland, þannig að það sé núna nægjanlegt að hann starfi einhvers staðar á Evrópska efnahagssvæðinu eða í aðildarríkjum stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum, einfaldlega vegna þess að það er talið stríða gegn reglum Evrópska efnahagssvæðisins að hafa það öðruvísi.