140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

vörumerki.

269. mál
[16:50]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Að sjálfsögðu er það rétt og skylt og gagnlegt að hv. þingnefnd fari vel yfir málið. Ég hygg nú að þetta sé töluvert skýrt, þ.e. 12. gr., sem breytir 1. mgr. 35. gr. laganna, er nokkuð skýr:

„Eigandi vörumerkis sem ekki hefur lögheimili á Evrópska efnahagssvæðinu, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum skal hafa umboðsmann búsettan á einhverju framangreindra landsvæða.“

Síðan er þetta nokkuð rækilega skýrt í umsögn um 12. gr. Þetta mun vera til samræmis við það sem er þá hinn hefðbundni frágangur mála á Evrópska efnahagssvæðinu, en í núgildandi lagaákvæðum sem ganga út á það, sem sagt nefnd 35. gr. vörumerkjalaga, nr. 45/1997, er ákvæði um skyldu þeirra aðila sem ekki hafa lögheimili hér á landi og sækja um skráningu vörumerkis hér á landi til að hafa umboðsmann búsettan hérlendis. Fyrirkomulagið er of þröngt, bæði hvað varðar umsækjandann og hvar umboðsmaður getur verið búsettur. Þessu er þá breytt með þessum hætti.

Að sjálfsögðu fagna ég því að þingnefndin fari vel yfir þetta en þangað til annað kemur í ljós geng ég út frá því að þetta sé sá rétti frágangur á málinu sem verði látinn athugasemdalaus af hálfu eftirlitsaðila á Evrópska efnahagssvæðinu.