140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

vörumerki.

269. mál
[17:03]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Það eru nokkrar spurningar sem vakna og kannski sérstaklega þegar maður lítur til umsagna um þetta mál á fyrri stigum en þar kom meðal annars fram álit frá áfrýjunarnefnd hugverkaréttinda á sviði iðnaðar þar sem segir, með leyfi frú forseta:

„Hugsanlega mun þetta hafa í för með sér að fleiri málum verður áfrýjað til áfrýjunarnefndar sem gæti þýtt aukinn kostnað.“

Sú breyting sem gerð er með þessu frumvarpi er að Einkaleyfastofu er veitt gjaldtökuheimild, eins og stendur í skýringu við 15. gr., með leyfi frú forseta:

„Með ákvæði þessu, sem samið er í samráði við Einkaleyfastofuna, er lagt til að heimild ráðherra til að ákveða gjöld, sem taka mið af kostnaði við rekstur Einkaleyfastofunnar vegna vörumerkjamálefna og þeirrar þjónustu sem veitt er, verði gerð skýrari og færð betur til samræmis við þær kröfur sem gerðar eru til innheimtu þjónustugjalda.

Í frumvarpi þessu er kveðið á um heimildir Einkaleyfastofunnar til að innheimta gjöld með sérstakri gjaldskrárreglugerð, sem ráðherra setur, fyrir þá þjónustu sem stofnunin veitir aðilum sem sækja um skráningu vörumerkis.“

Áfram heldur:

„Þá er kveðið á um að gjöld samkvæmt gjaldskrá skuli standa undir rekstri Einkaleyfastofunnar vegna umsýslu með umsóknum og skráningu vörumerkja. Nefnd eru dæmi um þau þjónustugjöld sem fallið geta til í tengslum við umsókn en undir önnur þjónustugjöld geta til að mynda fallið beiðnir um endurbirtingu vörumerkis, beiðni um takmörkun á verndarsviði, leit í vörumerkjaskrá, veiting afrita af umsóknum og skráningum vörumerkja o.fl.

Loks er tilgreint á hvaða kostnaðarliðum gjaldskrá skuli byggð.“

Maður veltir því fyrir sér hvaða heimildir Alþingi er að framselja ef við samþykkjum þetta frumvarp. Í skýringum við 3. og 4. gr. kemur fram að hér er verið að skjóta stoðum undir heimildir Einkaleyfastofu til að afla tekna til að standa undir rekstri sínum vegna þessa frumvarps. Það er því eðlilegt að við spyrjum hæstv. ráðherra: Hversu umfangsmiklar breytingar er verið að gera? Hversu háum fjárhæðum þarf stofnunin að verja í það eftirlit sem hún á að sinna? Þarf að fjölga starfsmönnum Einkaleyfastofu margfalt? Fyrst ekki hefur verið stoð undir þessa gjaldtöku fyrir þjónustu stofnunarinnar hingað til veltir maður fyrir sér hvernig Einkaleyfastofa hefur fjármagnað þennan hluta af starfsemi sinni. Mér finnst eðlilegt að við spyrjum um þetta við 1. umr. málsins.

Einkaleyfastofu eru færðar miklar heimildir til að fella umsóknir úr gildi, hafi athugasemdir eða lagfæringar umsækjenda ekki verið gerðar innan tilskilins frests, sem mig minnir að ég hafi lesið að séu tveir mánuðir.

Svo segir um 3. gr. á bls. 6, með leyfi frú forseta:

„Synjanir Einkaleyfastofunnar taka bæði til forms og efnis umsókna. Einkaleyfastofan getur veitt umsækjanda kost á að tjá sig oftar en einu sinni um annmarka umsóknar.“

Maður veltir fyrir sér hvort hægt sé að kæra þá úrskurði sem Einkaleyfastofa ákvarðar í málum sem þessum til æðra stjórnsýslustigs, hvort einhver aðili meti það hvernig Einkaleyfastofan hagar störfum sínum gagnvart þeim sem til hennar leita. Nú er ég ekki að gefa í skyn að þar sé maðkur í mysunni en mér finnst að við á Alþingi þurfum að gera okkur grein fyrir því hvað við erum að samþykkja.

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra um 4. gr. Hver er rökstuðningurinn fyrir því að frestur til að andmæla skráningu vörumerkis sé tveir mánuðir? Af hverju ekki einn mánuður eða þrír mánuðir? Hvers vegna var komist að þessari niðurstöðu? Er þetta tekið úr norrænni löggjöf eða hver er rökstuðningurinn?

Ég tek undir með hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni að við þurfum að skoða ýmis álitaefni betur og þess vegna er mjög gott að fá svör við þeim við 1. umr. áður en við fjöllum um þetta frumvarp í nefndinni eftir nokkra daga. Það mundi greiða fyrir starfi nefndarinnar ef hæstv. ráðherra gæti upplýst okkur. Við erum að leiða í lög gjaldtökuheimildir til Einkaleyfastofu og mér sýnist að Alþingi muni ekkert geta komið nálægt þeim vegna þess að ráðherra getur sett reglugerð um það hvernig Einkaleyfastofa innheimtir þessi gjöld. Ég get ekki séð neinar takmarkanir fyrir því að menn hafi verulegt svigrúm til að auka starfsemina og fjölga starfsfólki og hverjir greiða fyrir það? Það er ekki ríkissjóður heldur þeir sem nýta sér þessa þjónustu.

Við höfum nýlegt dæmi um hliðstætt mál sem er rekstur Fjármálaeftirlitsins. Fjármálaeftirlitið tekur gríðarlega mikla fjármuni af þeim fjármálafyrirtækjum sem það hefur eftirlit með. Við hv. þingmenn sem erum í salnum og erum í efnahags- og viðskiptanefnd þingsins, hv. þingmenn Guðlaugur Þór Þórðarson og Tryggvi Þór Herbertsson, þekkjum það að í raun og veru virðist fyrirkomulagið í dag á rekstri Fjármálaeftirlitsins vera þannig að Alþingi er þar einhvers konar stimpilpúði, það er búið að ákveða þetta allt fyrir fram. Þess vegna vara ég við því að við höldum áfram á þessari vegferð og færum Einkaleyfastofu og hæstv. ráðherra, framkvæmdarvaldinu, svo ótakmarkaðar heimildir og lagðar eru til í þessu frumvarpi.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra, af því að talað er um erlenda fyrirmynd og horft til Norðurlandanna: Er þessum málum fyrir komið með þessum hætti annars staðar? Koma þjóðþingin ekkert nálægt því þegar rætt er hvernig gjald er innheimt af viðskiptavinum stofnana eins og Einkaleyfastofu?

Þó að þetta mál sýnist voðalega saklaust við fyrstu kynni gæti hér leynst úlfur í sauðargæru, þ.e. ef við gefum okkur að þær heimildir sem kveðið er á um í frumvarpinu verði nýttar til hins ýtrasta. Það er einmitt þannig sem við höfum séð Fjármálaeftirlitið vaxa og vaxa og vaxa. Er ekki tími til kominn að staldra við? Við höfum átt samtöl um það hversu gríðarlega stórt apparat Fjármálaeftirlitið er og því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi ekki áhyggjur af þeirri þróun. Nú kemur hann reyndar úr þeim flokki sem vill auka umsvif hins opinbera mikið og þar hefur árangurinn verið glæsilegur að undanförnu.

Er verið að leggja til með þessu frumvarpi umfangsmiklar heimildir Einkaleyfastofu til að setja alls konar gjöld á atvinnulífið í landinu og það megi þá fjölga starfsmönnum stofnunarinnar til að sinna þessu eftirliti? Þetta minnir mig á tíðindi síðustu daga um íslensk eftirlitskerfi yfir höfuð, þau virðast ekki hafa virkað sem skyldi og eru mörg málin sem við getum nefnt þar. Ég tel því að þetta mál þurfi að skoða mjög vandlega og senda til ítarlegrar umsagnar. Því miður voru umsagnirnar um þetta mál mjög fátæklegar en það er kannski vegna þess að það lítur svo sakleysislega út. En við þurfum að standa vörð um þá sem leita til Einkaleyfastofu og að ekki verði farið ofan í pyngjur þeirra og reikningar hækkaðir í óhóflegum mæli. Ég bið því hæstv. ráðherra um að svara þessum spurningum mínum, sem ég vona að hann hafi tekið niður, vegna þess að mikilvægt er að þegar við í efnahags- og viðskiptanefnd þingsins fjöllum um þetta frumvarp höfum við í farteskinu hvaða hugsun býr á bak við það.