140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

vörumerki.

269. mál
[17:25]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Að sjálfsögðu tekur þingið sér þau völd í svona tilvikum sem það sjálft kýs, löggjafarvaldið liggur þar, fjárveitingavaldið liggur þar og fjárstjórnarvaldið. En Alþingi hefur búið um þetta í gegnum tíðina með tilteknum hætti og almennt hefur það ekki verið þannig að menn hafi samþykkt gjaldskrár fyrir þjónustugjöld á Alþingi í einstökum atriðum. Hér er ekki um neinn valdatilflutning að ræða frá því sem verið hefur, a.m.k. ekki í þessu tilviki. Ég er ekki talsmaður þess að draga burst úr nefi Alþingis hvað það varðar (Gripið fram í.) og tel að hv. þingmaður þurfi ekki að æsa sig út af því.

Varðandi Fjármálaeftirlitið var ég frekar í hinum hópnum, þeim sem vildi passa upp á að fjárveitinga- og fjárstjórnarvald Alþingis væri ekki upphafið jafnvel þó að í hlut ætti eftirlitsstofnun eins og Fjármálaeftirlitið, sem er kostað af eftirlitsaðilunum, og þó að það sé alveg skýrt að við þurfum að búa þannig um þá stofnun að hún sé algerlega sjálfstæð í störfum sínum. En ég legg ekki þann skilning í það sjálfstæði að hún geti algerlega skammtað sér tekjur sjálf óháð því sem verður niðurstaðan á Alþingi við afgreiðslu fjárlaga o.s.frv. Í því tilviki hafa verið deilur um hvernig nákvæmlega skyldi búa um þetta og varð niðurstaðan nú fyrir áramótin sú að fara yfir það á þessu ári, áður en kemur að því að ganga frá þessu máli næst, hvernig verði betur um þetta búið. Það held ég að sé skynsamlegt að gera. Ef menn vilja gera það í fleiri tilvikum eða fara rækilegar ofan í saumana á þessu máli er það mér algerlega að meinalausu. Ég fagna þeim eldmóði sem er í hv. þingmanni varðandi það að fara rækilega ofan í saumana á þessu stóra máli þegar það kemur til nefndar.