140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

vörumerki.

269. mál
[17:32]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru ekki margir sem taka þátt í þessari umræðu en þeir sem taka þátt fyrir utan ráðherrann, hv. þingmenn, ég held að ég geti alveg mælt fyrir munn hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar líka, að það vakti athygli okkar beggja þessi breytti málflutningur frá því fyrir nokkrum dögum síðan hjá hæstv. ráðherra. Nú kemur hæstv. ráðherra og segir það að hann hafi ekkert skipt um skoðun, ja, ég hvet nú hæstv. ráðherra til þess, af því að allt er hér tekið upp, að hlusta á ræðu sína sem hann flutti hér rétt áðan og svör við andsvari hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar. Ég held að ef hann fer í rólegheitunum yfir það komist hann að þeirri niðurstöðu að þetta er ekki sá tónn sem var sleginn, í það minnsta ekki í umsögn fjármálaráðuneytisins um Fjármálaeftirlitið og stöðu þess.

Virðulegi forseti. Úrvinnslugjaldið er meira að segja talið vera þjónustugjald en það er hins vegar misjafnt hvernig menn geta stillt því upp. Við hv. þingmenn þurfum auðvitað að ákveða hvernig við viljum haga þessum málum. Það er alveg rétt að á mörgum sviðum er þetta með þessum hætti en það má alveg færa rök fyrir því að það eru mörg vítin að varast í því. Það liggur t.d. fyrir að aukin gjaldtaka á þessu sviði kemur niður á neytendum, hún kemur ekki niður á neinum öðrum. Alveg eins og þegar menn hækka gjöld og setja skatta eða gjöld á fjármálafyrirtæki, sama hvaða nafni þeir nefnast, þá er minna svigrúm til að lækka vexti og afskrifa lán o.s.frv.

Ég hef svolitlar áhyggjur af því að hér segir skýrt að þetta séu auknar og skýrar gjaldtökuheimildir fyrir Einkaleyfastofuna, það er augljóst. Mér fannst að vísu (Forseti hringir.) gott hjá hæstv. ráðherra að segja bara eins og er, að hann hefði ekki skoðað þetta, (Forseti hringir.) en það þýðir að við þurfum að skoða þetta þeim mun betur.