140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

278. mál
[17:43]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta frumvarp talar held ég ákaflega vel fyrir sig sjálft, það er skýrt að hér er verið að bregðast við þessum athugasemdum. Við erum þátttakendur í þessu alþjóðlega samstarfi og ég geri ekki ráð fyrir því að deilur séu um að við eigum að vera það og taka þátt í því að berjast gegn því að óhreinir peningar séu þvegnir eða að menn noti krókaleiðir til að koma fjármagni milli aðila eða landa til að fjármagna hryðjuverkastarfsemi. Þetta höfum við samþykkt að gera sem þátttakendur í alþjóðlegu samstarfi og hér er meðal annars verið að bregðast við athugasemdum sem við höfum fengið frá þeim sem halda utan um þetta alþjóðlega samstarf og einnig að einhverju leyti frá innlendum aðilum, samanber það sem ég rakti áðan um rafræn skilríki — sem reyndar vel að merkja er stjórnvaldsstefna að efla, að auka útbreiðslu þeirra. Þó að viðleitni á því sviði hafi kannski legið lágt um skeið af ástæðum sem allir þekkja, vegna aðstæðna í samfélaginu og efnahagslífinu, er kominn skriður á það á nýjan leik. Það er hluti af því að nútímavæða þjónustuna að rafrænar undirskriftir verði útbreiddari og rafræn skilríki til að sannreyna og staðfesta rafrænar undirskriftir og eðlilegt að það komi inn á þetta svið eins og önnur.