140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

278. mál
[17:47]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að leggja þetta frumvarp fram. Það er alveg hárrétt, eins og hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar benti á, að það er frekar fátæklegt um að litast innan efnahags- og viðskiptanefndar þegar kemur að stjórnarmálefnum. Þess vegna er ágætt að fá þetta frumvarp þar til úrvinnslu. Það er frumvarp til laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, með síðari breytingum.

Hér er komið inn á persónuskilríki o.fl. og ekki ætla ég að draga úr mikilvægi þess að við eigum gott samstarf á alþjóðavísu í aðgerðum gegn peningaþvætti. Þess vegna tel ég, án þess að ég hafi kafað ítarlega ofan í málið, enda er það til 1. umr., að það hljóti að vera til bóta.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra nokkurra spurninga varðandi það sem fram kemur í athugasemdum við lagafrumvarpið.

Í fyrsta lagi kemur þar fram, með leyfi frú forseta:

„Við samningu frumvarpsins var haft samráð við fulltrúa nefndar um aðgerðir gegn peningaþvætti, en í henni eiga sæti fulltrúar frá Samtökum fjármálafyrirtækja, embætti ríkislögreglustjóra, Fjármálaeftirlitinu, innanríkisráðuneytinu, utanríkisráðuneytinu, fjármálaráðuneytinu, Seðlabanka Íslands, Félagi löggiltra endurskoðenda, Félagi fasteignasala og Lögmannafélagi Íslands, auk fulltrúa frá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu. Þá var einnig haft samráð við Neytendastofu og Auðkenni ehf.“

Þarna þurfa yfirvöld væntanlega að rannsaka hátterni lögaðila og einstaklinga, það hlýtur að gilda líka um eftirlit með peningaþvætti, og hér er minnst á persónuskilríki o.fl. Þá velti ég því fyrir mér og spyr hæstv. ráðherra að því hvers vegna fulltrúar til að mynda Persónuverndar eða þeir sem tengjast málinu úr þeirri átt hafi ekki komið að málinu á fyrri stigum. Þarna er jafnvel um að ræða persónulegar og viðkvæmar upplýsingar í einhverjum tilvikum. Þess vegna hefði ég talið að til þess að undirbyggja frumvarpið vel þannig að það yrði sem best úr garði gert áður en það færi til efnahags- og viðskiptanefndar — og þar með er ég ekki að gefa í skyn að svo sé ekki — hefði verið nauðsynlegt að hafa hlið mála með, þ.e. persónuvernd og vörn borgaranna gagnvart stóra bróður, eins og stundum er talað um.

Mig langar í öðru lagi að spyrja hæstv. ráðherra að því, af því að hér var sett á fót formleg nefnd: Var algjör samstaða innan nefndarinnar um það frumvarp sem við ræðum hér eða voru ólík sjónarmið uppi og var einhverjum sérálitum skilað? Gott væri að hafa upplýsingar um það áður en við hefjum þessa vinnu hvort við ræðum um mál sem afgreitt var í góðri samvinnu og sátt eða hvort nefndarmenn hafi haft misjafnar skoðanir á frumvarpssmíðinni.

Í þriðja lagi langar mig að spyrja hæstv. ráðherra um það sem stendur um 1. gr. Í 2. mgr. er sagt, með leyfi frú forseta:

„Með breytingunni sem lögð er til er ætlunin að fella greiðslustofnanir undir ákvæði 2. mgr. þar sem kveðið er á um að Fjármálaeftirlitið geti ákveðið að aðilar sem falla undir lögin séu undanþegnir ákvæðum laganna.“

Ég velti því fyrir mér hvað þessi málsgrein þýðir. Hver er hugmyndin á bak við hana? Á að undanþiggja einhverjar greiðslustofnanir undan ákvæðum laganna strax við gildistöku þeirra? Ég vil að fá að heyra frá hæstv. ráðherra hver hugsunin er varðandi þessa málsgrein.

Að síðustu langar mig að spyrja hæstv. ráðherra um það sem fram kemur í fylgiskjali með frumvarpinu frá fjármálaráðuneytinu, umsögn um frumvarp. Það er frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins og var trúlega skrifað þegar hæstv. ráðherra var fjármálaráðherra. Þar er minnst á FATF-hópinn þar sem segir, með leyfi frú forseta:

„FATF-hópurinn vinnur að aðgerðum er miða að því að koma í veg fyrir að fjármálakerfi séu notuð til að þvætta fé og fjármagna hryðjuverk. Hópurinn hefur verið starfandi frá árinu 1989 en Ísland hefur verið í samstarfi við hann síðustu tuttugu árin og er skuldbundið til að samræma löggjöf sína og starfsreglur tilmælum FATF. “

Ég staldraði við síðustu orðin í þessari setningu þar sem fram kemur að Ísland hafi skuldbundið sig til að samræma löggjöf sína og starfsreglur tilmælum FATF.

Fyrir forvitnissakir vil ég fá upplýsingar um eftirfarandi: Greiða íslensk stjórnvöld eitthvað til að standa straum af þessum samtökum, sem vel að merkja vinna örugglega að góðum hlutum eins og þessu frumvarpi er ábyggilega ætlað að gera?

Í fyrsta lagi: Setjum við einhverja fjármuni til þess að starfrækja þennan hóp? Það kemur nefnilega fram í kostnaðarumsögninni að ekki verði séð að lögfesting frumvarpsins verði fjárhagslega íþyngjandi fyrir ríkissjóð.

Í öðru lagi langar mig að vita hvar við höfum skuldbundið okkur til þess að samræma þessa löggjöf. Ég hef reyndar ekki verið á Alþingi nema í tæp níu ár og ég man ekki í fljótu bragði eftir því að við höfum rætt þetta sérstaklega, en okkur til upplýsingar væri ágætt að heyra nánar um þennan hóp og aðkomu Íslands að þessu samstarfi. Setjum við einhverja fjármuni til þess að starfrækja þennan hóp og með hvaða hætti höfum við skuldbundið okkur til þess að undirgangast starfsreglur og tilmæli þessa starfshóps? Miðað við það er Alþingi skuldbundið til að fara fyrir fram að því hvaða tillögur hópurinn setur fram.

Þetta eru ábendingar mínar og ég fagna því að við skulum ræða um breytingu á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti. Það kemur fram í athugasemdum við lagafrumvarpið að þetta hefur verið áralangt ferli og mér sýnist samkvæmt athugasemdum við frumvarpið að okkur hafi miðað áfram og það er mjög gott.

Ég beini sem sagt einum fimm spurningum til hæstv. ráðherra sem ágætt væri að fá svör við vegna þess að ég á von á því að miðað við þann fátæklega fjölda af stjórnarfrumvörpum sem eru í efnahags- og viðskiptanefnd að strax verði farið yfir þetta frumvarp og það frumvarp sem við ræddum áðan. Það er ágætt að koma vel nestaður til þeirrar umræðu og yfirferðar í nefndinni að hæstv. ráðherra geti svarað þeim fyrirspurnum sem ég hef lagt fram.