140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

stefna um beina erlenda fjárfestingu.

385. mál
[18:26]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst hv. þingmaður seinheppinn þegar hann ætlar í þennan leik og notar sem röksemdafærslu sjónarmið fræðimanns sem í eigin nafni og á eigin ábyrgð birtir sín sjónarmið í greinargerð sem hann hefur tekið saman og er birt með hans nafni. (BJJ: Fylgir með.) Já, sem er fylgiskjal með málinu að sjálfsögðu. En sjónarmiðin eru sjónarmið fræðimannsins sem hann stendur fyrir sem slíkur. Þau eru það hvorki meira né minna. Það er þannig. Það þýðir ekki endilega að með því að birta slíkt álit fræðimanns þurfi allir að vera því sammála, annars sé það ekki birt. Er það þannig sem hv. þingmaður vill hafa þetta? Þetta eru einfaldlega sjónarmið og rök sem hér eru færð fram sem hver og einn getur tekið afstöðu til fyrir sitt leyti.

Varðandi það sem segir um krónuna á bls. 5 þá gegnir í raun og veru svipuðu máli. (BJJ: Um álverið.) Reyndar í greinargerðinni. Um álverið já, alla vega þarf varla að deila um það að í landi þar sem þegar eru þrjú álver sé það komið á kort álframleiðslu í heiminum. Það eru ekki miklar fréttir. (BJJ: Ákjósanlegt.) Það er ekki mikil pólitík í því að viðurkenna slíka staðreynd.