140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

stefna um beina erlenda fjárfestingu.

385. mál
[18:29]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Tillagan er mjög skýr. Hún leggur áherslu á mikilvægi þess að efla fjárfestingu í íslensku atvinnulífi og þar á meðal beina erlenda fjárfestingu á þeim grundvelli sem tillagan markar; að stuðla að fjölbreytni í atvinnulífinu, að styðja við verndun og nýtingu umhverfis á sjálfbærum grunni, að nýta nýjustu tækni, að skapa í gegnum framleiðsluferli sem mestan virðisauka innan lands, að skapa hlutfallslega mörg störf og hátt hlutfall verðmætra starfa, að stuðla að eflingu rannsókna og þróunar og öflun nýrrar þekkingar. Þetta er fjárfesting sem er arðsöm og skilar hlutfallslega miklum skatttekjum, skapar ný tækifæri eða tækifæri sem talin eru æskileg til að styrkja innlenda starfsemi sem fyrir er. Bein fjárfesting innlend sem erlend sem mætir þessum kröfum, er í þessum anda — já, fyrir henni viljum við beita okkur og gjarnan laða hana að og fögnum því að sjálfsögðu ef hér getur orðið atvinnuuppbygging sem við teljum að þrói okkar efnahagslíf og atvinnulíf í rétta átt.