140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

stefna um beina erlenda fjárfestingu.

385. mál
[18:34]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hvet hv. þingmann til að fara yfir tillögugreinina og þá stefnu sem þar er lagt upp með. Það er væntanlega það sem er áhugaverðast að ræða hér. Erlend fjárfesting er náttúrlega opin og hefur lengi verið það þeim sem á því hafa áhuga hér, t.d. allra innan Evrópska efnahagssvæðisins. Það er ósköp einfaldlega þannig að við erum fyrir löngu samningsbundin til þess að gera ekki greinarmun í þeim efnum á innlendum og erlendum aðilum í þeim skilningi, að slepptum þeim takmörkunum sem þar eru fyrst og fremst á fjárfestingum í frumveiðum og vinnslu sjávarafurða. Það er ekkert nýtt í þeim efnum.

Það sem mér finnst langáhugaverðast og mikilvægast að ræða er hvaða áherslur við eigum að leggja í þeim efnum og á hvaða sviðum er vænlegast fyrir okkur að slík fjárfesting og uppbygging verði með framtíðarhagsmuni þjóðarinnar, samfélagsins og þjóðarbúsins að leiðarljósi. Eins og ég hef sagt þegar í umræðunni er ég prýðilega sáttur við þær framsæknu áherslur sem eru lagðar upp í tillögugreininni.