140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

stefna um beina erlenda fjárfestingu.

385. mál
[18:38]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður nefnir hér mikilsverðan þátt og ég get alveg tekið undir það að ég teldi auðvitað æskilegt að löggjöf væri sterkari á ýmsum sviðum í þeim efnum en hún er í dag. Það er alveg rétt. Að vísu held ég að varðandi auðlindirnar sjálfar sé slegið eins traustri skjaldborg um sjávarauðlindina og nokkur kostur er. Það stendur ekki til að hrófla við eignarhaldi ríkisins á þeim auðlindum og þeim fyrirtækjum sem hafa aðgang að auðlindum sem ríkið á í tíð núverandi ríkisstjórnar þannig að þar eru líka varnir uppi. Að sjálfsögðu væri auðlindalöggjöf og skýrari sameignarákvæði, t.d. í stjórnarskrá, tvímælalaust til bóta. En að það sé ástæða til að reyna að halda erlendum fjárfestum frá af þeim ástæðum sé ég kannski ekki, enda væri það í sjálfu sér ekki í okkar valdi nema við segðum upp þeim samningum sem heimila þeim aðgang hér á landi, samanber EES-samninginn.

Við erum kannski fyrst og fremst að tala um spurninguna hvort almennar fjárfestingar í hinu almenna efnahags- og atvinnulífi aukist frá því sem verið hefur.