140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

stefna um beina erlenda fjárfestingu.

385. mál
[18:40]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fer að velta því fyrir mér hverjir þessir erlendu fjárfestar ættu að vera. Er verið að reyna að hvetja til dæmis alla aflandskrónueigendurna sem eru lokaðir inni í hagkerfinu og munu ekki komast út á næstu árum og jafnvel áratugum vegna þess að það mun ógna gengi krónunnar eða gengi hennar mun lækka verulega þegar þessir 430 milljarðar streyma út úr hagkerfinu? Það væri ekki nema við tækjum upp nýjan gjaldmiðil og skrifuðum þessar eignir aflandskrónueigenda niður sem möguleiki væri á að losna við þessa snjóhengju.

Ég velti því líka fyrir mér í ljósi þess hversu mikið fjármagn er inni í hagkerfinu, þ.e. sem þessir aflandskrónueigendur eiga og allt það fjármagn sem lífeyrissjóðirnir eru með lokað inni, hvort einhver þörf sé á því að fara í hvatningarherferð til að fá hingað nýja erlenda fjárfesta. Er ekki nóg af fjármagni inni í hagkerfinu (Forseti hringir.) og er ekki vandamálið að það eru ekki til nógu arðbær fjárfestingartækifæri?