140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

þjóðaratkvæðagreiðsla um nýja stjórnarskrá.

[10:33]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta mál er til umfjöllunar hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem hefur sent tillögur stjórnlagaráðs til umsagnar. Eftir því sem ég best veit er verið að fjalla um þær umsagnir og fara yfir þær. Auðvitað fer það eftir niðurstöðu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hvert framhaldið verður á þessu máli og hve fljótt og vel henni tekst að vinna það. Takist henni að vinna þetta á næstu vikum, fara yfir þessar tillögur og ná góðri samstöðu eða að minnsta kosti einhverri meirihlutasamstöðu um málsmeðferð í þessu máli leyfi ég mér að vona að það geti orðið á þeim nótum að nefndin geri sínar athugasemdir, og lagfæringar eftir atvikum, við tillögur stjórnlagaráðs, stjórnlagaráð fái þá aftur í stuttan tíma til umsagnar þær tillögur sem yrðu væntanlega gerðar og síðan yrði, ef ég mætti ráða ferðinni, útbúin þingsályktunartillaga um að málið fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Nú má vel vera að það sé of seint að það fari í þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða forsetakosningum en þá síðar og þá yrðu menn að leggjast yfir það með hvaða hætti málið yrði lagt fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég sé fyrir mér að það mætti skoða það eftir slíka yfirferð og lagfæringar að setja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu þannig að fólk fengi tækifæri til að greiða atkvæði um málið kaflaskipt. Að þeirri yfirferð lokinni kæmi málið inn í þingið í frumvarpsformi til afgreiðslu. Vonandi næst að afgreiða það héðan áður en þessu kjörtímabili lýkur.