140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

atvinnumál.

[10:38]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Í gær komu tölur frá Hagstofu Íslands um að á síðustu 12 mánuðum hefði störfum á vinnumarkaði fækkað um 3.100. Frá upphafi mælinga Hagstofu Íslands hefur atvinnuþátttaka á Íslandi aldrei mælst lægri en einmitt á síðasta ársfjórðungi síðasta árs.

Mig langar að biðja hæstv. forsætisráðherra að útskýra þessar tölur. Hæstv. forsætisráðherra flutti ræðu á mánudaginn og talaði um þau góðu verk sem ríkisstjórnin væri að vinna, þá væntanlega í atvinnu- og efnahagsmálum þjóðarinnar. Hún sendi stjórnarandstöðunni um leið tóninn, líka Samtökum atvinnulífsins og Alþýðusambandi Íslands og vildi kenna þeim aðilum um allt sem aflaga hefur farið á undangengnum árum við hagstjórn á Íslandi. Ég tel að hæstv. forsætisráðherra verði að útskýra fyrir okkur hvernig standi á því að atvinnuþátttaka hafi aldrei verið lægri á Íslandi í sögulegu samhengi, störfum hafi fækkað á einu ári, þ.e. fólki á vinnumarkaði, um 3.100. Ber þetta þess merki að atvinnustefna ríkisstjórnarinnar sé yfir höfuð einhver?

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra hvenær við fáum að sjá lyktir mála eins og að rammaáætlun verði lögð fram þannig að við getum farið að ræða um það með hvaða hætti við ætlum að nýta auðlindir þjóðarinnar. Hvenær á að klára samgönguáætlun sem kom ári á eftir áætlun inn í þingið og hefur komið í veg fyrir margar framkvæmdir sem eru í biðstöðu? Eins og ég les hana er hún reyndar metnaðarlausasta plagg Íslandssögunnar þegar kemur að samgönguframkvæmdum hér á landi þannig að það er eðlilegt að við spyrjum: Hvert stefnir þessi ríkisstjórn í atvinnumálum?