140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

atvinnumál.

[10:41]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Við höfum margoft rætt það, virðulegi forseti, hvert þessi ríkisstjórn stefnir í atvinnumálum. Ég held að öllum sé það ljóst nema stjórnarandstöðunni að hún er á réttri leið. Hér er spurt um vinnumarkaðinn og ég er hérna með fréttir frá greiningardeild Íslandsbanka sem segir stöðuna á vinnumarkaði batna. Þetta hefur eitthvað farið fram hjá hv. þingmanni. (Gripið fram í.)

Tölur Hagstofunnar eiga sér sína skýringu. Ég held að hún hljóti að felast í atvinnuaðgerðum ríkisstjórnarinnar að því leyti að við höfum kappkostað að taka fólk sem hefur verið á atvinnuleysisskrá inn í nám. Þar með hefur það farið af vinnumarkaðnum. Ég held að allir fagni því að fara þá leið. 2–3 þús. manns hafa farið í skóla á grundvelli þeirra aðgerða sem við höfum gripið til. Þeim sem eru í fullu starfi hefur fjölgað, en þeim fækkað sem eru í hlutastörfum. Ég hygg að það eigi sér allt sínar skýringar. Auðvitað þarf samt að gera betur á vinnumarkaði en við höfum gert. Hið opinbera hefur komið þar inn af fullum krafti en það vantar meira að atvinnulífið sjálft taki við sér og geri slíkt hið sama.

Seðlabanki Íslands gaf nýlega út að störfum hefur fjölgað á vinnumarkaði um 5 þús. Það er mjög góðs viti. (Gripið fram í.) Við sjáum að hagvöxtur er að fara hér upp og er miklu meiri en í nágrannalöndunum þar sem meðaltalið hjá 32 löndum innan OECD er um 2% en við erum að tala um 3–4%. Allt er þetta á réttri leið.

Ég fór yfir það um daginn að ýmsar fjárfestingar eru í gangi, bæði sem áform eru um og eru að fara af stað, bæði fyrir norðan og sunnan, sem gefa okkur vonir um að það verði meiri innspýting í atvinnulífið en spár (Forseti hringir.) gefa tilefni til að ætla. Þar er talað um að á næstu 3–4 árum muni störfum fjölga verulega eins og ég lýsti í framsöguræðu minni þá.