140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

atvinnumál.

[10:43]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Staðreyndin er sú að fólki á íslenskum vinnumarkaði hefur fækkað um 3.100 á síðasta ári. Er þetta árangur? Er það árangur þegar hæstv. ráðherra gumar af því að verið sé að taka fólk út af vinnumarkaði og beina því í nám eða á bætur? Þetta er engin stefna sem ríkisstjórnin rekur þegar kemur að atvinnumálum þjóðarinnar. Atvinnumál snerta líka skuldug heimili vegna þess að ef fólk hefur ekki atvinnu á það erfitt með að standa undir skuldbindingum stökkbreyttra lána sem hækkuðu um 40% í kjölfar hrunsins.

Ég hvet hæstv. forsætisráðherra, hvet öllu heldur aðra til að vekja hæstv. forsætisráðherra af þyrnirósarsvefni sínum til næstum þriggja ára. Það er með ólíkindum að horfa upp á þessa þróun og sjá hæstv. ráðherra koma hingað upp skipti eftir skipti (Forseti hringir.) og tala um einhvern árangur í atvinnumálum þegar þróunin er þveröfug í þeim efnum.