140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

atvinnumál.

[10:44]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það þarf ekkert að vekja þá sem hér stendur, hún er vakin og sofin yfir þessu verkefni og er að gera sitt besta ásamt ríkisstjórninni til að koma hjólum atvinnulífsins í gang. Ég minni hv. þingmann á það þegar hann gerir lítið úr þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem við höfum verið í varðandi atvinnulaust fólk, að koma því í nám, að þetta var ein af stóru aðgerðunum sem Finnar fóru í á sínum tíma þegar þeir lentu í kreppunni sinni, þ.e. að mennta fólkið. Þar erum við að byggja upp til framtíðar og ég hygg að það sem muni standa mjög upp úr þegar menn skoða sögu þessa tímabils sem við erum að ganga í gegnum verði að þetta hafi einmitt verið stórar aðgerðir til að hjálpa fólki inn í framtíðina og í atvinnu. (Gripið fram í.)

Hv. þingmaður hlýtur líka að gleðjast yfir því sem við töluðum um hér um daginn, að landflótti er sem betur fer að minnka. Á síðasta ársfjórðungi voru 70 aðfluttir umfram brottflutta og þar erum við að tala um allt aðrar tölur en SA voru með. Samtök atvinnulífsins töluðu um að það yrðu um 400–500 manns en af þessum 70 (Forseti hringir.) eru um 15 Íslendingar þannig að ég held að þetta sé allt á réttri leið. Hv. þingmaður ætti að lesa þær tölur sem við erum að sjá núna með réttu hugarfari (Forseti hringir.) en ekki lesa alltaf allt aftur á bak sem mér virðist hann gera.