140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

staða kjarasamninga.

[10:46]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er greinilega þörf á því að taka ítarlegri umræðu en okkur gefst kostur á í dag um atvinnumálin og stöðu þeirra. Eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson hefur vakið athygli á hér í þinginu, bæði í gær og í dag, þá draga tölur Hagstofunnar, um fækkun fólks á vinnumarkaði, upp þá mynd að þrátt fyrir að atvinnuleysistölur Vinnumálastofnunar hafi lækkað er ekki um raunverulegan árangur að ræða heldur fyrst og fremst breyttar forsendur. Það er verið að reikna atvinnuleysið úr minna mengi eða minni samtölu en áður þannig að þetta eru eiginlega hagtöluleg minnkun á atvinnuleysi en ekki raunverulegur árangur í atvinnumálum.

Varðandi þetta atriði, hæstv. forseti, má líka bæta því við að það er gott þegar fólk á þess kost að fara í nám. En það er ekki gott að helsti hvatinn að því að fólk fari í nám sé dapurt ástand á vinnumarkaði. Best er auðvitað að fólk eigi valkostina, geti farið á vinnumarkaðinn, geti fundið störf við hæfi en eigi líka kost á að fara í nám. En nóg um það.

Ég vildi spyrja hæstv. forsætisráðherra um stöðu kjaramála, það tengist þessu. Við heyrum fréttir af því þessa dagana að innan bæði samtaka launþega og vinnuveitenda eru mjög sterkar skoðanir um að forsendur kjarasamninga séu brostnar, ekki vegna þess að samningsaðilarnir sjálfir hafi ekki staðið við sitt heldur vegna þess að ríkisstjórnin hefur ekki staðið við sitt.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra, daginn áður en úrslitastundin rennur upp varðandi framlengingu kjarasamninga: Hver eru skilaboð hennar til aðila vinnumarkaðarins?