140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

staða kjarasamninga.

[10:52]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er svolítið merkilegt að enginn annar en ríkisstjórnin sjái þau skref vegna þess að þau blasa alls staðar við. Ég veit ekki hvort það hefur farið fram hjá hv. þingmanni að bætur almannatrygginga hafa hækkað um 12% á einu ári meðan áformin eru um að laun á almennum vinnumarkaði eigi að hækka á kjarasamningstímabilinu um 11%. Það hefur kannski farið fram hjá hv. þingmanni líka að kaupmáttur lægstu launa hefur hækkað sl. 12 mánuði um 8–9% og almenn hækkun launa hefur verið um 3–5%. Það hefur kannski líka farið fram hjá hv. þingmönnum að við höfum gert það sem ríkisstjórn sjálfstæðismanna og Framsóknarflokks gerði ekki, og er ég þar að tala um verðtryggingu á persónuafsláttinn sem kostar ekki neitt smátt.

Við höfum verið að lækka tryggingagjaldið. Er það ekki sýnileg aðgerð? Við höfum verið að fara í átak í svartri atvinnustarfsemi. Það er aðgerð sem skiptir máli. Við höfum farið í margvíslegar aðgerðir sem snúa að vinnumarkaðsaðgerðunum og margt annað gæti ég nefnt vegna þess að það eru engar smáaðgerðir sem ríkisstjórnin lagði með sér til að tryggja stöðugleika á vinnumarkaði. Við erum að vinna að því þessar klukkustundir að reyna að loka þessu með aðilum vinnumarkaðarins þannig að 20. janúar, þegar fundurinn verður hjá þeim, verði hægt að ganga algerlega frá því að við höfum kjarasamninga það sem eftir lifir þessa kjarasamningstíma.