140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

andstaða við ESB-umsókn.

[10:53]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég get ekki orða bundist yfir því að ríkisstjórnin gumar af því að hafa lækkað tryggingagjaldið. Ég vil minna á að fyrst var tryggingagjaldið hækkað upp úr öllu valdi og svo lækkað og það er kannski ástæðan fyrir því að illa gengur; fyrst er allt hækkað og svo lækkað til málamynda. Við þekkjum þessi vinnubrögð.

Það sem ég ætlaði að ræða við hæstv. forsætisráðherra er nýleg skoðanakönnun en í henni kemur í ljós að andstaðan við Evrópusambandsumsóknina er komin langt yfir 60%, nánar tiltekið 63% — 63% íslensku þjóðarinnar vilja ekki ganga í Evrópusambandið og vilja stöðva þessar viðræður.

Hv. þm. Bjarni Benediktsson talaði við hæstv. forsætisráðherra áðan um þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs. Hæstv. forsætisráðherra er áfjáð í að koma þeim tillögum í þjóðaratkvæðagreiðslu þó ekki sé búið að boða til kosninga. Því langar mig til að upplýsa hæstv. forsætisráðherra um að ég, ásamt þremur þingmönnum, er með í utanríkismálanefnd þingsályktunartillögu sem gengur út á það að Íslendingar fái nú þegar að greiða atkvæði um hvort halda eigi þessari Brussel-vegferð áfram, Evrópusambandsumsókninni. Þar voru sett þau tímamörk að þjóðaratkvæðagreiðsla um það efni færi fram í síðasta lagi 1. mars.

Ég hef nú gert breytingartillögu á þessari þingsályktunartillögu því að þriggja mánaða tímatakmarkið, til að undirbúa þjóðaratkvæðagreiðslu, er liðið. Ég hef lagt til að þjóðaratkvæðagreiðsla, um hvort halda eigi viðræðuferlinu áfram eða ekki, fari fram samhliða forsetakosningum. Ef ekki samhliða forsetakosningum þá samhliða þjóðaratkvæðagreiðslunni sem hæstv. forsætisráðherra boðar. Styður hæstv. forsætisráðherra það ekki að þessi mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu í ljósi þess hve skýrt þjóðin talar?