140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

andstaða við ESB-umsókn.

[10:58]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Í tilefni þeirra orða sem hæstv. forsætisráðherra lét falla í upphafi um hrunið, þá vil ég minna á að Samfylkingin hefur setið í ríkisstjórn í fimm ár. Samfylkingin var í hrunstjórninni, hæstv. forsætisráðherra sat í ríkisstjórninni og hæstv. forsætisráðherra var sérlegur fjármálaspekúlant í þeirri ríkisstjórn.

Við vitum hvaða umræður eru á dagskrá á morgun. Það á að fjalla um landsdóm. Ég hef oft verið á þeirri skoðun að hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra hefðu átt að vera til rannsóknar í rannsóknarskýrslu Alþingis eins og þeir sem voru rannsakaðir.

Ég treysti þjóðinni, stjórnarandstaðan á þingi treystir þjóðinni, en við ásamt þjóðinni treystum ekki ríkisstjórninni fyrir þeim samningum sem verið er að víla og díla með úti í Brussel. Það er það sem þetta snýst um, 63% þjóðarinnar vilja ekki ganga þá leið sem ríkisstjórnin er að fara. Ríkisstjórnin vill leysa mál í ósátt en ekki í sátt og fer með ESB-málið eins og málefni heimilanna og atvinnulífið, keyrir það beint ofan í skurð — og þjóðin vill ekki sjá þessa ríkisstjórn.