140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

skattlagning fjármagns.

[11:01]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að óska hæstv. fjármálaráðherra Oddnýju Harðardóttur til hamingju með nýtt embætti og ég óska henni velfarnaðar á nýju ári, ekki veitir þjóðinni af, vegna þess að störf fjármálaráðherra eru afskaplega viðamikil og mikilvæg fyrir þjóðina.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hyggist hverfa frá þeirri stefnu að skattleggja fjármagn undir drep eins og ríkisstjórnin hefur gert. Það segi ég í ljósi þess að forveri hennar í embætti, hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon, mælti í gær fyrir þingsályktunartillögu þar sem hann biðlar til fjármagns, hann biðlar meira að segja til erlends fjármagns, að það komi til Íslands og auki fjárfestingu á Íslandi. Öðruvísi mér áður brá, frú forseti. Í gær lagði hæstv. ráðherra til að lokka hingað erlent fjármagn og í þingsályktunartillögunni er undirstrikað að á Íslandi gildi eignarréttur, líka fyrir útlendinga. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hún hyggist hverfa frá þeirri stefnu að skattleggja fjármagn og hagnað fyrirtækja eins og gert hefur verið, og hverfa frá þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að skattleggja þjóðina út úr kreppunni en reyna í staðinn að örva fjármagn og fjárfestingar, því að fjárfestingar eru forsenda þess að hér myndist atvinna. Atvinna er það einmitt það sem þjóðin þarf mest af öllu.