140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

skattlagning fjármagns.

[11:03]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og einnig góðar kveðjur.

Hv. þingmaður spyr hvort sú sem hér stendur muni hverfa frá þeirri stefnu að skattleggja fjármagn. Skattstofnar ríkisins biðu mikinn hnekki í hruninu, eins og menn þekkja, og varð að bregðast við því svo niðurskurður í velferðarþjónustunni yrði ekki svo mikill að þeir sem þyrftu sérstaklega á þeirri þjónustu að halda bæru þar óbætanlegan og skarðan hlut frá borði. Allar þessar aðgerðir hafa sínar aukaverkanir, ef svo má að orði komast, en við erum ekki komin á þann stað, því miður, að við getum farið að lækka skatta. Enn rekum við ríkissjóð á lánum og á meðan svo er er glapræði að ætla að fara í það mál.

Ég vil minna á að það er frítekjumark á fjármagnstekjuskatti og það er líka athyglisvert að eignarskattar hafa varla breyst frá því á árinu fyrir hrun. Skýringin er m.a. sú að almenni eignarskatturinn sem mjög margir greiddu af tiltölulega litlum eignum var felldur niður en í staðinn er kominn auðlegðarskattur sem greiddur er af þeim sem eiga miklar eignir. Sá skattur er tímabundinn. Fyrst mundi ég skoða þann skatt (Forseti hringir.) ásamt lækkun á tryggingagjaldi áður en aðrar skattlagningar væru skoðaðar.