140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

skattlagning fjármagns.

[11:05]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Svör hæstv. fjármálaráðherra valda mér miklum vonbrigðum. Ég hafði vonast til þess að hún sæi ljósið og reyndi að stækka kökuna sem ríkissjóður hefur tekjur af í stað þess að leggja sífellt meiri álögur á fólk og fyrirtæki.

Þegar fyrirtæki verða fyrir áföllum eru þau ekki nógu burðug til að bera meiri skatta. Það er miklu gáfulegra að reyna að stækka kökuna og fá þannig meiri tekjur út úr skattstofnunum en vera sífellt að hækka skattana. Mér sýnist að hæstv. ráðherra ætli sér að halda áfram að skattleggja en það leiðir til stöðnunar í landinu og hættulega mikillar kyrrstöðu. Ég spurði í gær: Hvernig stendur á því þegar ofgnótt er af fjármagni á Íslandi að enginn fjárfestir?