140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011-2022.

393. mál
[11:38]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. ráðherra svörin og fagna því sem hæstv. ráðherra sagði og að hvetja hv. umhverfis- og samgöngunefnd til að taka sérstakt tillit til þessara tveggja verkefna. Sérstaða beggja þessara verkefna er með þeim hætti að það átti að fara í ákveðnar mótvægisaðgerðir vegna niðurskurðar í þorskafla og það er búið að klára aðrar framkvæmdir en þessar tvær, annars vegar veginn um Fróðárheiði og hins vegar veginn um Öxi. Það er sérstaða þessara verkefna. Ég hef fullan skilning á því að þegar fjárframlög til Vegagerðarinnar vegna uppbyggingar vega og til samgönguáætlunar minnka þurfum við að forgangsraða upp á nýtt.

Sérstaða þessara verkefna er alveg skýr. Þetta voru verkefni sem átti að bregðast við í þessum byggðarlögum vegna skerðingar í þorskafla sem ég hef áður nefnt og þetta eru einu verkefnin sem eftir eru, hinum er öllum lokið. Þess vegna er mjög sérstakt að þetta skuli ekki vera gert.

Síðan er það mjög mikilvægt atriði og ég mun fara betur yfir það í ræðu minni hvers vegna samgönguráð tekur ekkert mark á því sem kemur frá þinginu. Það finnst mér dapurlegt (Forseti hringir.) þó að ég ætli ekki að saka hæstv. ráðherra um (Forseti hringir.) að gera það.