140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011-2022.

393. mál
[11:43]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að við þurfum að vera raunsæ þegar við setjum fram áætlun sem þessa. Ég er kannski ekki alveg sammála honum með bjartsýnina en þar greinir okkur bara á. Það er einfaldlega þannig.

Ég geri áfram athugasemdir við það fyrirkomulag sem mér sýnist vera í þessari áætlun, að ekki sé lagt til að klára framkvæmdir sem byrjað er á. Ég bendi líka á, svo ég taki dæmi af hinum margfræga Þverárfjallsvegi, að ég finn þess ekki stað, og það getur vel verið að það hafi farið fram hjá mér, að klára eigi þann veg þar sem hann liggur í gegnum stóran þéttbýlisstað og þarf að færa hann og helst í dag út af aðalskipulagi þess sveitarfélags. Ég sé ekki að sá vegur sé inni á þessari áætlun. Ef það er misskilningur hjá mér verður það bara leiðrétt, en ég fæ ekki séð að svo sé. Ég bendi hæstv. ráðherra og öllum aðstoðarmönnunum hér til hliðar að þetta sveitarfélag hyggur á framkvæmdir (Forseti hringir.) þar sem þessi vegur liggur og hann þarf að fara.