140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011-2022.

393. mál
[11:56]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Sú áætlun sem hér liggur fyrir eða þær áætlanir, samgönguáætlun annars vegar til fjögurra ára og hins vegar til tólf ára, eru plögg sem eru mikil að vexti og engin leið í þessari fyrri umræðu að fara vandlega yfir einstaka þætti. Það eru þó nokkur atriði sem ég ætla að nefna. Ég vil taka það fram varðandi einstaka þætti að við í umhverfis- og samgöngunefnd hljótum að fara gaumgæfilega yfir þá síðar og þurfum að gefa okkur góðan tíma til þess, enda er hér um að ræða undirstöðustefnumörkun til langs tíma á afar mikilvægu sviði.

Hæstv. forseti. Fyrst ætlaði ég að koma örlítið inn á það atriði sem bar hér á góma í andsvörum og svörum hæstv. ráðherra og hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar rétt áðan. Eins og ég nálgast málið veldur það vonbrigðum að sjá sýn ríkisstjórnarinnar á hvaða möguleikar eigi að verða til þess að efla fjárfestingu í samgöngum hér á komandi árum. Það veldur vonbrigðum. Ég geri ekki athugasemdir við það að hæstv. ráðherrar eða ríkisstjórn geri raunhæfar og raunsæjar áætlanir, það er óhjákvæmilegt. Sú sýn sem lesa má út úr þessari áætlun er dapurleg að mínu mati. Við höfum á undanförnum þremur árum tekið mikið högg í þessum málaflokki eins og reyndar víða. Framlög til nýframkvæmda hafa dregist mjög saman og eins til viðhalds og slíkra þátta. Þessi samgönguáætlun gefur mér eiginlega til kynna að hæstv. ríkisstjórn sjái ekki fyrir sér að forsendurnar muni lagast mikið fyrr en seint og þá frekar lítið ef tekið er mið af þeim áformum um framlög til vegamála og annarra samgöngumála sem í áætluninni er að finna.

Ég geri ekki athugasemdir við að menn geri frekar varkárar áætlanir en glannalegar. Mikið óskaplega vona ég að við fáum sem allra fyrst tækifæri til þess að endurskoða þá þætti sem þarna er að finna og gefur okkur tilefni til að setja meira fjármagn í þá. Hér erum við að tala um fjárfestingu fyrst og fremst, fjárfestingu í innviðum. Auðvitað er líka mikilvæg þjónusta inni í þessum tölum, en stóru tölurnar liggja í fjárfestingu. Ekki á að líta á fjárfestingu sem eyðslu heldur eitthvað sem við leggjum inn til að bæta hag okkar að svo mörgu öðru leyti, þar á meðal til þess að stuðla að bættri afkomu atvinnuvega víða um land. Það er einn þátturinn í þessu. Þetta er því ekki allt saman bara peningur út heldur er þetta fjárfesting sem getur skilað sér ef rétt er á málum haldið.

Þá komum við að þeirri hugsun að mjög oft hafa önnur sjónarmið en arðsemissjónarmið eða hagkvæmnissjónarmið ráðið því hvernig reiknað er. Hæstv. ráðherra nefndi oft hugtakið félagshagfræðileg skoðun, greining eða athugun. Það er ágætisleið til að skoða hlutina. Það er ekki hrein fjárhagsleg skoðun á hlutunum heldur eru aðrir þættir teknir inn í. Það er auðvitað jákvætt. Það þarf samt að bæta hugsunina í sambandi við stefnumörkun og fjárfestingar á þessu sviði þannig að um sé að ræða fjárfestingu sem annars vegar sparar og hins vegar ýtir undir verðmætasköpun og vöxt víða um landið.

Ég vildi líka geta þess, hæstv. forseti, að þegar maður veltir fyrir sér aðhaldsaðgerðum undanfarinna ára, fyrst og fremst undanfarinna þriggja ára — þá er ég að tala um breiðara svið en bara það sem fellur undir þessa samgönguáætlun — hefur mér oft þótt harðar gengið fram í að skera niður framkvæmdir en rekstur hjá hinu opinbera. Það hefur verið fyrsta skrefið mjög víða að draga saman í framkvæmdum, enda er það á vissan hátt auðveldara frá einu ári til annars en að fara í reksturinn. Ef farið er í gegnum fjárlögin má sjá að farið hefur verið miklu harðar í niðurskurð hvað varðar framkvæmdir en rekstur. Í mörgum tilvikum er þetta eingöngu frestun á útgjöldum en ekki raunverulegur sparnaður eins og hefði hugsanlega náðst fram ef gengið hefði verið fastar fram í því að hagræða í rekstri hins opinbera. Það er önnur saga sem birtist meðal annars í þessu máli. Það varð auðvitað mikið högg og mikill samdráttur hefur orðið í framlögum til samgöngumála á undanförnum þremur árum. Það sem þessi samgönguáætlun gefur til kynna er afar seinn viðsnúningur og ekki mikill þegar hann á síðan að verða. Þetta vildi ég segja.

Þetta eru forsendur sem ég tel að við þurfum líka að fara yfir í hv. umhverfis- og samgöngunefnd og meta hvort færi er að ganga lengra á einstökum sviðum en gert er hér. Ég tek þó enn og aftur fram, hæstv. forseti, að varfærin áætlanagerð er auðvitað skynsamlegri en glannaleg.

Ég ætla ekki að fara nánar í einstaka þætti nema hvað ég vildi nefna, af því ég er ekki viss um að aðrir muni endilega koma mikið inn á þann þátt nú við fyrri umræðu, það atriði sem getið er um hér og hefur reyndar komið fram áður um það sem kallað er frestun stórra samgönguframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu til tíu ára. Ég er ekki viss um að fólk átti sig almennt á því hvað í þessu felst. Ef hæstv. ráðherra á þess kost síðar í umræðunni að skýra nánar hvað við er átt vildi ég gjarnan að hann kæmi nánar inn á það. Fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins sem nálgast nú að vera 2/3 landsmanna getur þetta verið töluvert mikið mál, bara svo að það sé sagt hérna. Frestun stórra samgönguframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu í tíu á, fram til 2022, er bara heilmikið mál.

Nú þekki ég eins og aðrir hv. þingmenn viljayfirlýsingu sem fulltrúar ríkisstjórnarinnar og forustumenn sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu undirrituðu í fyrra út af þessu máli, en ég sem íbúi og þingmaður á suðvesturhorninu hlýt að velta því fyrir mér hvort frestun stórra samgönguframkvæmda á því svæði landsins þar sem 2/3 landsmanna búa sé hugsuð til enda. Mér finnst það umhugsunarefni verð ég að játa.

Ég ætla ekki að gera athugasemdir við það að í samgönguáætlun sé fjallað um eflingu almenningssamgangna sem eru auðvitað mikilvægt verkefni. Ég verð þó að segja að sú efling almenningssamgangna af þeirri stærðargráðu sem maður les út úr áformunum, um milljarður á ári, sem er reyndar miklu minni upphæð á þessu ári, er óraunhæf vegna þess að þetta á ekki að byrja að tikka fyrr en í haust. Ég hef miklar efasemdir um að þetta átak til eflingar almenningssamgöngum, svo gott sem það kann að vera, kippi burtu þörfinni fyrir stórar samgönguframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu. Ég leyfi mér bara að efast um það og mun í störfum mínum í nefndinni veita þessu töluverða athygli af því að ég reikna alveg með því að þingmenn annars staðar að af landinu muni horfa frekar á aðra þætti. Þetta finnst mér vera þáttur sem við þurfum að skoða nánar.

Auðvitað þarf að taka tillit til fjöldamargra þátta við gerð samgönguáætlunar. Það eru hagkvæmnisþættir, það er umferðaröryggi eins og hefur verið nefnt í þessari umræðu og fjöldamargir aðrir þættir sem varða byggðaþróun og þess háttar. Það gerir að verkum að á sviði samgöngumála hlýtur athyglin að beinast meira að hinum dreifðu byggðum þar sem samgöngur eru erfiðari en á höfuðborgarsvæðinu. Það er ekkert óraunsætt að meta það svo. Auðvitað á þeim landsvæðum þar sem um langan veg er að fara milli byggða og þar sem samgöngur eru af náttúrulegum ástæðum erfiðar hljóta menn að setja athyglina í sambandi við áætlanagerð á sviði samgöngumála, það neitar því enginn. Hitt er svo annað mál að sá hluti landsins þar sem mikill meiri hluti landsmanna býr hefur setið á hakanum og miklu meira en eðlilegt er. Ekki er óeðlilegt, hæstv. forseti, að málin verði skoðuð við gerð þessarar samgönguáætlunar út frá þeim sjónarhóli líka.