140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011-2022.

393. mál
[12:22]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Ég er sammála mörgum af þeim sjónarmiðum sem fram komu í máli hennar. Í fyrsta lagi er það alveg rétt hjá hv. þingmanni með Árneshrepp — við vitum öll hvernig ástandið er þar með snjómokstur, ekki er mokað frá janúar og fram að páskum vegna þess hve hættulegur vegur þar er. Samkvæmt þeirri áætlun sem fyrir liggur er ljóst að sú regla verður við lýði allt til ársins 2022 ef ekki verða breytingar á. Samkvæmt samgönguáætlun má ekki búast við því að íbúar í þessu sveitarfélagi geti búið við reglulegan snjómokstur næstu 10–15 árin í það minnsta.

Ég er líka sammála sjónarmiðum hv. þingmanns um framkvæmdaleysi á hennar heimasvæði, til að mynda með Dýrafjarðargöng, að þau skuli ekki koma inn fyrr en á seinni hluta tímabilsins. Það má líka nefna framkvæmdir sem voru í fyrri áætlunum og hafa dottið út, eins og t.d. endurbygging þjóðvegar um Seyðisfjörð og Álftafjörð. Þessi framkvæmd var inni á áætlun og er fullhönnuð. Ef maður skoðar áætlunina að Dýrafjarðargöngum, að seinasta hluta slepptum, er engin vegaframkvæmd á norðanverðum Vestfjörðum allt til ársins 2022.

Nú er ég að koma að spurningu minni. Mig langar að beina þessari spurningu til hv. þingmanns, af því að hann er varaformaður samgöngunefndar sem mun taka þetta mál til umfjöllunar: Telur hv. þingmaður ekki að það sé grundvallaratriði, ef afgreiða á þessa samgönguáætlun á þessu vorþingi, að fram komi breytingar á áætluninni í þá veru að úr verði bætt varðandi samgöngumál í þessum landshluta eins og fram kom í máli hv. þingmanns? Er forsvaranlegt að samþykkja samgönguáætlun án þess að (Forseti hringir.) breytingar verði gerðar í þá veru sem hv. þingmaður nefndi?