140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011-2022.

393. mál
[12:29]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það gleður mig að hæstv. innanríkisráðherra er mér sammála í afstöðu minni til þeirrar stefnu sem vinna beri út frá. Ég vil þó varðandi Vestfjarðaveg 60 taka fram, eins og reyndar kom fram í máli ráðherrans, að allt er óráðið enn um leiðarval á þeirri leið sem getur og mun trúlega enn um sinn tefja það að hægt verði að leiða það mál til lykta. Það mál hefur verið í ólestri í fjöldamörg ár. Það er ég ekki að setja á herðar hæstv. ráðherra, að hann beri ábyrgð á því, en það mál hefur verið í ólestri í fjöldamörg ár og blæs ekki byrlega um lausn á því máli í bráð.

Þá vil ég líka minna á að þegar talað er um að gert sé ráð fyrir miklum fjármunum í þessar vegaframkvæmdir að það er nú ekki ný saga. Það hefur nú áður verið gert ráð fyrir töluverðum fjármunum sem aldrei hafa komist til framkvæmda vegna þess að leiðarvalið hefur ekki fengið lyktir.

Eins og ég sagði áðan er ég sammála þeim markmiðum sem koma fram í þessari samgönguáætlun. Ég vil hins vegar að við fylgjum þeim markmiðum eftir í reynd, vegna þess að það eru alltaf verkin sem sýna merkin.