140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011-2022.

393. mál
[12:30]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt, verkin sýna merkin. Nú eru vegavinnutæki að störfum á þeim vegaköflum sem hér hefur verið vísað til. Það er alveg rétt að það eru svæði á Vestfjörðum sem eru mjög illa haldin og við höfum ekki fjármuni til að greiða úr núna. En við erum að grípa til aðgerða og við erum að reyna að hraða framkvæmdum eins og nokkur kostur er. Það var þess vegna á þeirri forsendu, á forsendu hraðans, sem ég lagði til, að ábendingum sérfræðinga Vegagerðarinnar, að fara svokallaða Hálsaleið, að bæta Hjallahálsinn og Ódrjúgshálsinn, vegna þess að við mundum þannig bæta samgöngurnar hraðar en ella. En gegn þessu var gríðarleg andstaða. Fólk á Vestfjörðum, þessu svæði, vill ekki þessa leið. „Alright“, þá tökum við því, þá hlustum við að sjálfsögðu á það.

Þá eru tvær aðrar leiðir til skoðunar; að fara í göng undir Hjallaháls — þau göng eru inni í þessari áætlun — en samhliða erum við að skoða aðra kosti, láglendisleiðir, þveranir fjarða o.s.frv. Við komumst ekkert hraðar en þetta vegna þess að við hljótum að sjálfsögðu að horfa til þess lagaramma sem við störfum innan, hvort sem það eru skipulagsmál, náttúruvernd eða annað. En við viljum einnig, og ég er staðráðinn í því, hlusta á þau sjónarmið sem fólk hefur á þessu svæði. Það er ég að reyna að gera.