140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

staða dýralæknisþjónustu um land allt.

[13:41]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Hv. þingmaður gerir hér að umtalsefni þær breytingar sem hafa verið gerðar á skipulagi dýralæknisþjónustu í landinu og fylgdu, eins og fram kom, í kjölfar þeirra breytinga sem gerðar voru á lögum um dýralæknis- og heilbrigðisþjónustu vegna innleiðingar á ákvæðum um dýraafurðir í I. viðauka EES-samningsins, en það mál fékk mikla umræðu hér á þingi.

Varðandi það sem hv. þingmaður nefndi um dýralyf og skráningarskyldu og gafst ekki tími til að ræða, vil ég í því sambandi undirstrika að þar er auðvitað um að ræða öryggismál, öryggi í meðferð lyfja og að tryggt sé að dýralyf geti ekki komist inn í fæðukeðjuna. Þetta er gríðarlega mikilvægt og er til meðferðar að gera allt sem mögulegt er til að tryggja heilsuvernd og matvælaöryggi og þarf ekki að minna á mikilvægi þess, samanber umræður undanfarna daga.

Með þessari lagasetningu var héraðsdýralæknum sem áður höfðu starfað fækkað úr 14 í sex og ástæðan var einfaldlega þessi aðskilnaður milli eftirlits og almennrar dýralæknisþjónustu. Með lögunum er kveðið á um að héraðsdýralæknar sinni einungis stjórnsýslu og eftirliti en er óheimilt að stunda dýralækningar. Það lá alltaf fyrir að þetta mundi kalla á mikla endurskipulagningu og ég tel ekki sanngjarnt að draga það í efa að bæði ráðuneytið og Matvælastofnun hafi gert sitt besta til að útfæra þessar breytingar miðað við þann þrönga stakk sem þeim er skorinn fjárhagslega.

Reyndar var þegar tekið skref í þessa átt með dýralæknalögum 1998 þegar sérstakir héraðsdýralæknar voru settir í þrjú umfangsmestu umdæmin sem sinntu þá eingöngu embættishlutverki í Reykjavík, Árnes- og Rangárþingi og Skagafjarðarsýslu. Þetta var meðal annars gert á grundvelli samkeppnissjónarmiða þar sem fleiri og sjálfstætt starfandi dýralæknar voru til staðar á þessum svæðum, og ég hygg að hv. málshefjandi þekki til málsins. Ástæðan fyrir fækkun embættanna nú er hins vegar sú að ekki var talinn grundvöllur fyrir því að fleiri héraðsdýralæknar sinntu öðru en stjórnsýslu og eftirliti, m.a. vegna þess að menn urðu að nota þá fjármuni sem til voru að öðru leyti til að tryggja almenna dýralæknisþjónustu.

Þá kemur að því að tryggja dýralæknisþjónustu í dreifðum byggðum. Með lögunum frá 2009 var kveðið á um að ráðherra skyldi setja reglugerð um þetta mál, hvernig tryggja skyldi starfsaðstöðu, greiðslu staðaruppbótar og/eða ferðakostnað dýralæknis sem tæki að sér að veita slíka þjónustu. Sett var bráðabirgðaákvæði um reglugerð 1. júlí 2010 og haft náið samráð við Dýralæknafélag Íslands, Bændasamtök Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga og Matvælastofnun varðandi allan undirbúning að því hvernig opinber stuðningur í þessu skyni ætti að koma til.

Það kom fljótt í ljós þegar farið var að huga að smíði þessarar reglugerðar að ekki yrði náð utan um þetta án þess að taka á heildarskipulagi dýralæknakerfisins. Reglugerðin sem sett var sumarið 2010 var því strax ófullkomin og ljóst að hana þyrfti að endurskoða. Var það og gert með gildistöku hennar 1. nóvember 2011 en reyndar var það svo ekki fyrr en í desember sem hún tók gildi. Á grundvelli hennar og heimilda í lögum og fjárveitinga voru síðan gerðir þjónustusamningar við þá dýralækna í dreifðum byggðum sem í hlut áttu.

Upphaflega var reynt að ná samningum við þessa lækna um blandaða þjónustu, þ.e. þeir sinntu almennri dýralæknisþjónustu en gætu síðan tekið að sér tiltekin eftirlitsstörf sem er heimilt samkvæmt lögunum en ekki náðust slíkir samningar, dýralæknar höfnuðu þeim alfarið.

Varðandi það sem hér var nefnt um að svæði séu of stór skal taka það fram að að stærstum hluta eru þetta gömlu umdæmi héraðsdýralæknanna nema hvað Húnaþing allt er nú eitt þjónustusvæði en var áður tvískipt, á móti var Bæjarhreppur á Ströndum færður yfir í Dalaumdæmi. Ástæðan fyrir því að Húnavatnsumdæminu var slegið saman er meðal annars sú að á Hvammstanga og Blönduósi eru stórgripasláturhús sem krefjast mikillar viðveru dýralækna og það var áætlað meira en hálft starf á hvorum stað. Þessum húsum hafa héraðsdýralæknar sinnt með öðrum störfum.

Þar sem ekki náðist samkomulag um að semja bæði um þjónustu og eftirlit við sömu aðila þótti það ekki réttlæta að nauðsynlegt væri að skipta Húnavatnssýslum í tvö umdæmi. Það hefði kostað að minnsta kosti heilt stöðugildi til viðbótar á svæðinu sem ekki voru fjármunir fyrir. Það er hins vegar miður að ekki hefur enn tekist að semja við þjónustudýralækni sem staðsettur er í Húnaþingi og því er embættinu tímabundið sinnt frá Skagafirði.

Ég legg svo áherslu á það að lokum, frú forseti, að að sjálfsögðu er mikilvægt að samningar takist, bæði um þjónustu á einstökum svæðum sem og bakvaktasamninga, en það eru samningaviðræður þar sem hagsmunir vegast á. Eins og málshefjanda sjálfum er vel kunnugt er komið að því að ná samningum um kaup og kjör og starfsskilyrði og stjórnvöld hafa takmörkuð úrræði í þeim efnum miðað við þær fjárveitingar sem til staðar eru og voru þó auknar (Forseti hringir.) umtalsvert fjárveitingar til þessarar þjónustu í fjárlögum yfirstandandi árs. Það er þeim sem hér stendur mjög vel kunnugt um því að ég tók óskir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins um verulega hækkun fjárveitinga í þessu skyni inn í (Forseti hringir.) fjárlagafrumvarpið.