140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

staða dýralæknisþjónustu um land allt.

[13:53]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér fer fram, það er svo sem ekki í fyrsta skipti sem við ræðum þetta mál í ræðustól þingsins. Fram fór örlítil umræða hér síðast í haust, ef ég man rétt, í kjölfar fyrirspurnar hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar um þetta sama mál. Þar viðraði þingmaðurinn þær áhyggjur sem bændur og þeir aðilar sem þurfa á þjónustu dýralækna að halda höfðu af þeim breytingum sem þeir töldu þá mundu verða í kjölfar nýrrar matvælalöggjafar sem tók gildi, ef ég man rétt, 1. nóvember sl. hvað þetta mál varðar. Í þeim umræðum kom fram í svari hæstv. þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jóns Bjarnasonar, að ástæðulaust væri að hafa áhyggjur af þeim þáttum sem þá voru í umræðunni, þ.e. verri þjónustu við bændur varðandi dýravernd. Ástæðulaust væri að hafa áhyggjur af því, það væru ýmsir möguleikar til að bregðast við þeim þáttum, m.a. með undanþáguákvæðum sem þáverandi ráðherra vísaði til að hægt væri að beita og bregðast við ef á þyrfti að halda.

Ég held að það sé samt sem áður rétt að hafa örlitlar áhyggjur af þessu máli, rétt eins og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson benti á og hv. þm. Ásmundur Einar Daðason sömuleiðis í innleggi sínu áðan. Ég held að okkur sé hollt að fylgjast með þróun þessara mála áfram og sjá til þess að brugðist verði við þeim þáttum sem kunna að fara úrskeiðis á þessu sviði. Hæstv. þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra benti á að möguleiki væri til, og ég gat ekki heyrt betur á ræðu núverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra en að notaður yrði ef á þyrfti að halda.