140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

staða dýralæknisþjónustu um land allt.

[13:57]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Herra forseti. Ég þakka málefnalegar umræður um málið. Varðandi fyrstu orð hæstv. ráðherra í sambandi við skráningar vil ég segja að auðvitað vilja allir að skráningar séu í lagi. Og þær eru það víðast hvar. Það sem lagt er til núna undir stjórn Matvælastofnunar er að þar verði, að eigin sögn, metnaðarfyllsta skráningarkerfi í heimi. Menn vilja hins vegar ekki að það séu fimm skráningar á dag, það sé tvíverknaður og að allur sá kostnaður sem fylgir komi ofan í allt það sem við höfum rætt hér um þjónustusamninga, vaktsamninga, skort á samningum um jöfnun aksturs og annað því að þá verða skilyrði dýralæknanna sjálfra til vinnunnar miklu verri og sá kostnaður leggst síðan ofan á þjónustuna til dýraeigendanna. Það var heldur ekki meiningin með breytingunni á matvælalöggjöfinni en við óttuðumst það, mjög margir, að kostnaður mundi aukast. Það er ekkert skrýtið að fjármuni þurfi inn í kerfið, það vissu allir. Spurningin er því fyrst og fremst sú til hæstv. ráðherra: Er einhver stefnubreyting væntanleg eða ætlar ríkisvaldið áfram að styðja fullkomlega við bakið á því að tryggja jafnræði alls staðar á landinu að dýralæknisþjónustu og tryggja þar með dýravelferð?

Í veikustu byggðum landsins er það algjörlega ólíðandi ef það verður lakari dýralæknisþjónusta ef dýralæknirinn fer. Þar sem þær byggðir byggjast fyrst og fremst á landbúnaði munu þær fyrstar gefast upp. Þær mega ekki við því. Þetta er líka spurning um þá stefnumörkun ríkisstjórnarinnar að efla matvælaframleiðslu um 10%. Hvernig á að gera það ef þessi þáttur lætur undan?

Við nefndum Húnavatnssýslurnar sem dæmi, en það eru önnur svæði nákvæmlega jafnerfið. Það er Borgarfjörður og allt Vesturland, það eru Vestfirðir, Norðausturland, Suðausturland, og á þeim svæðum sem lengst hafa haft þennan aðskilnað er líka búið að (Forseti hringir.) stækka vaktsvæðin og fela einum dýralækni að gera það sem tveir gerðu áður. Þeir ráða ekki við það, menn treysta sér ekki til að standa þær vaktir og þess vegna þarf að koma yfirlýsing frá hæstv. ráðherra sem ber ábyrgð á þessum málaflokki (Forseti hringir.) að hér verði staðið við bakið á kerfinu eins og hingað til og að aukakostnaður verði ekki lagður á dýraeigendur (Forseti hringir.) í landinu.